Innlent

Skemmdarverk og þjófnaður í Foldaskóla

Birgir Olgeirsson skrifar
Skólastjórinn biður nágranna skólans að vera á varðbergi vegna grunsamlegra mannaferða við skólann að næturlagi.
Skólastjórinn biður nágranna skólans að vera á varðbergi vegna grunsamlegra mannaferða við skólann að næturlagi. Vísir/GVA
Skólastjóri Foldaskóla í Grafarvogi hefur beðið nágranna skólans um að vera á varðbergi vegna grunsamlegra mannaferða við skólann í skjóli nætur. Foreldrum og forráðamönnum nemenda við skólann barst póstur frá Kristni Breiðfjörð skólastjóra í hádeginum. Þar sagði hann frá því að tveir piltar, á að giska 18 til 20 ára, hefðu farið inn í skólann á níunda tímanum í morgun og gripið tvær úlpur í fatahenginu við Fjörgyn og hlaupið út.

Lögregla var kölluð á staðinn en ekki hefur náðst til þeirra. Báðir voru piltarnir í hettupeysum og annar með bláa derhúfu. Þeir óku á brott á litlum hvítum fjögurra dyra bíl með svartri breiðri rönd við afturgluggann. Númer bílsins náðist ekki. Debetkort úr annarri úlpunni fannst hins vegar í Elliðaárdalnum í morgun.

Þá voru þrettán rúður brotnar í skólanum aðfaranótt síðastliðins sunnudags og var einum skjá stolið með því að teygja sig inn um brotinn gluggann. Nágranni sem átti leið hjá lét vita af rúðubrotunum á sunnudeginum þannig að hægt var að koma í veg fyrir frekara tjón.

„Ég vil biðja nágranna okkar um að hafa strax samband við lögreglu ef vart verður við hávaða eða grunsamlegar mannaferðir við skólann í skjóli næturmyrkurs,“ segir Kristinn í pósti til foreldra og forráðamanna nemenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×