Innlent

Eiríkur telur kosningabrag vera á fjárlagafrumvarpinu

sæunn gísladóttir skrifar
Eiríkur Bergmann segir svolítinn kosningabrag á fjárlagafrumvarpinu.
Eiríkur Bergmann segir svolítinn kosningabrag á fjárlagafrumvarpinu. mynd/hörður sveinsson
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður Evrópufræðaseturs, segir svolítinn kosningabrag á fjárlagafrumvarpinu.

„Það er verið að stilla upp loforðunum og lækka skatta. En þetta sýnir líka það að staða ríkissjóðs hefur batnað á undanförnum árum, ef þetta er rétt svona.“

Spurður um hvort hann telji að fylgistapið hjá stóru flokkunum að undanförnu hafi markað þetta segist Eiríkur ekki alveg klár á því. „En stjórnarflokkarnir þurfa náttúrulega að stilla sér upp gagnvart sínum kjósendum. Sjálfstæðisflokkurinn gerir það með skattalækkunum og Framsókn gerir það með húsnæðisliðnum. En þetta er bara pólitík eins og pólitík er, frekar en að þetta sé viðbragð við Pírötum,“ segir Eiríkur.

Spurður hvort hann telji þá að flokkarnir séu að huga að kosningum fyrr en venjulega segist Eiríkur ekki átta sig nákvæmlega á því. „Við erum búin að vera í svo óeðlilegu ástandi undanfarið, það er búið að vera svo þröngt í búi eftir hrun að ríkisstjórnir hafa ekki getað stillt sér svona upp. En ef við erum núna í einhvers konar eðlilegu ástandi, og efnahagslífið í sæmilegu jafnvægi, þá má segja að þetta sé upptaktur fyrir kosningafjárlög næsta árs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×