Innlent

Svíta með bitlús, sírennsli í klósetti, viðbjóðslegum teppum...

Jakob Bjarnar skrifar
Í upphafi ferðar. Eftirvænting í loftinu en aðbúnaðurinn sem fjölskyldan sá fyrir sér reyndist ekki í samræmi við raunveruleikann.
Í upphafi ferðar. Eftirvænting í loftinu en aðbúnaðurinn sem fjölskyldan sá fyrir sér reyndist ekki í samræmi við raunveruleikann.
Hörður Óskarsson, kennari á Akureyri birtir sláandi frásögn á Facebook af draumafríinu sem hann og fjölskylda fóru í til Tyrklands. Viku ferð í júlí sem kostaði tæpar 800 þúsund krónur. Óhætt er að segja að ferðin hafi valdið sárum vonbrigðum. Hörður og kona hans, Erna Rós Ingvarsdóttir, stíla bréf sitt á Nazar-ferðaskrifstofuna; sem hann varar fólk eindregið við; „Kæra Nazar Ísland!“ – en vinsamlegt ávarpið gefur ekki rétta mynd af því sem svo fylgir; þar sem lýst er fyrirheitum um draumafríi sem aldrei rættust. Auk þess koma þau Hörður og Erna Rós inn á þvergirðing ferðaskrifstofunnar, hún vill ekkert gera til að bæta tjónið. Ferðin kostaði um 800 þúsund krónur, en Herði og fjölskyldu er boðin tíu þúsund króna inneign í næstu ferð. Það boð hækkaði í 60 þúsund krónur nú í morgun, samkvæmt bréfi frá Nazar til Harðar.

Sundurbitin eftir bitlús

Vísir ræddi við Hörð og hann leggur áherslu á vonbrigðin snúi af hinum svokallaða „comfort-pakka“ sem átti að fylgja, eitt og annað sem snéri að hótelinu hafi verið í ágætu lagi. „Nei, ég ætla ekki að þiggja inneignarnótu,“ segir Hörður. Og telur sig geta gengið frá málinu bærilega sáttur, þó vörusvikin hafi vitaskuld haft áhrif á alla ferðina, sem var hugsuð sem fermingargjöf til dóttur þeirra hjóna og útskriftarferð til sonanna. Hörður segir að gæta verði sanngirni, allt utan „comfort-pakkans“ sem hann keypti hafi verið í góðu lagi; en bitlús virtist hafðast við í rúmfatnaði og fjölskylduna klæjaði eftir ferðina, sundurbitin og þurfti að hafa fyrir því eftir ferð að sótthreinsa heima heimkomin. Hörður lítur á þetta sem neytendamál. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum má lýsingin „lúxus-íbúð“ heita veruleg gengisfelling á orðinu lúxus.

Inngangurinn í hótelið og svo teppin; blettótt og fátt eitt við þau sem minnir á lúxus.
Vörusvik

Pistill þeirra hjóna, sem er skilmerkilegur, er undir fyrirsögninni „Vörusvik Nazar Ísland“ og hefst svo:

„Við verðum að segja að þið hafið valdið okkur miklum vonbrigðum. Ykkur er sjálfsagt alveg saman því við erum bara einhver sem skiptir ykkur ekki nokkru máli.

En fríið okkar fjölskyldunnar sem búið var að hafa mikið fyrir var langt frá því að standa undir væntingum og að ykkar sögn þykir ykkur það miður og bjóðið okkur 10.000 kr afslátt á næstu ferð með ykkur, og ekki einu sinni per mann!! Ferðin kostaði 786.146 kr.“

Rakaskemmdir og sírennsli

Í bréfinu er því lýsir að ekki hafi staðið steinn yfir steini:

„Þið seljið okkur eðal Bens jeppa sem við borgum fyrir en fáum Lödu (ekki einu sinni sport).

Delux fjölskyldu svíta með svölum, myndir á netinu og lýsingar alveg glimrandi og jók á tilhlökkum okkar. En maður minn! Það var þá delux svíta, viðbjóðsleg teppi á gólfinu með rakablettum, sírennsli í klósettinu, úr sér gengnum rúmum og svefnstóllinn sem þriðja “barnið” fékk var ja hvað skal segja “algjört hró”. Svalirnar slíkar að þig langaði ekki út á þær með plaststólum og borðræfli sem munað hafa fífil sinn fegurri og vísuðu út á hús sem hafði að geyma ljósavélina sem fór reglulega í gang þegar rafmagnið fór af hótelinu sem var nokkuð algengt.“

Sírennsli var í klósettinu og þegar rafmagnið fór, þá fór vararafstöðin í gang.
Tómur Comfort Class pakki

Og áfram halda hjónin og segja frá því að fátt eitt hafi staðist, lítið samræmi hafi verið milli fyrirheita og svo raunveruleikans:

„Jæja til að auka á þægindi okkar í þessu himneska fríi ákváðum við að kaupa okkur comfort class pakkann, tæpar 100 þús á fjölskylduna en jæja við ætluðum að gera vel við okkur enda fermingargjöf dótturinnar og útskriftargjafir drengjanna. VIP innskráning hljómaði vel eftir langt flug, sem var langt frá því að vera með góðu flugfélagi, hvað þá flugfreyjum en það er nú önnur saga. En VIP? Það var ekki einu sinni kveikt á VIP innskráningarbásnum þegar við komum en jú það kom starfsmaður sem fylgdi okkur á herbergið og við máttum tala við hana ef eitthvað væri. Ekki leið á löngu þar til við töluðum við hana því áfyllti mínibarinn sem var í comfort class pakkanum var tómur og tók tvo daga að fylla á.

Engir sólbekkir og lélegt wi-fi

Jæja mikið væri nú gott að leggjast á sólbekkina sem eru fráteknir fyrir okkur á ströndinni, jú jú líka inni í comfort class pakkanum. Nei þeir voru allir uppteknir og við létum vita og reyndum aftur og aftur en jú við fengum bekki seinni partinn þegar fólk fór að græja sig í kvöldmat. Jú það var notalegt að leggjast á þá en fyrir hvað vorum við að borga tæpar 100 þúsund aukalega? Morgunverðir 3 x og kvöldverður 1 x á betri veitingastöðum, trúið okkur hin venjulegi matsalur var mun betri og ekki þess virði að prófa hina staðina. Jú nýkreistur appelsínusafi var inn í pakkanum, við fengum hann einn morgun, vorum ýmist of snemma eða ekki á réttum tíma þegar við fórum í morgunmat þó að löngu væri búið að opna veitingasalinn. Frítt wi-fi var í pakkanum, með þrjú ungmenni hljómaði það mjög vel. Það er hins vegar svo lélegt að ekki var þess virði að eyða peningum í það, einfaldara að fara í lobbýið þar sem frítt wi-fi er og mun betra.“

Kvikindi í teppunum

Ekki er frítt við að greina megi háðskan og sáran tón í bréfi Harðar, og lái honum hver sem vill:

„Við erum enn að gera það upp við okkur hvort tveir baðsloppar hafi verið þess virði að kaupa comfort class pakkann... fórum ekki í sloppana vegna hita en jú inniskórnir þessi tvenn pör björguðu okkur frá því að þurfa að koma við teppið sem var þannig að þig langaði alls og þá meina ég alls ekki til að koma við það. Því mikið var að kvikindum sem bitu okkur fjölskylduna hressilega og einhver komu með okkur heim í töskunum okkar og kostuðu okkur mikil þrif og fyrirhöfn að losna við.“

Tíu þúsund króna skaðabætur boðnar

Eftir þessar lýsingar varar þau hjón því næst fólk við ferð sem þessari, og segir engan veginn brugðist við kvörtunum:

„Því segjum við við ykkur sem eruð að spá í að fara til Tyrklands með Nazar og á Pegasos World ... hugsið málið vandlega því ekki er allt sem sýnist á heimasíðunni og illa brugðist við kvörtunum.. Það tók Nazar 4 og hálfa viku að komast að því að þeim þykir eins og fyrr segir miður að fríið stóðst ekki væntingar og bjóða okkur 10 þús. kr. í afslátt á næstu ferð fyrir 5 manna fjölskyldu! Alla vega í Guðanna bænum kaupið ykkur frekar eitthvað fallegt fyrir 100 þúsund í stað þess að kaupa Comfort Class pakkann og gangið úr skugga um að ekki séu teppi á herbergjunum ykkar og svo í lokin þá veit ég af fólki, hjónum með eitt barn sem voru í alveg eins herbergi og við, nema það var nýuppgert með parketi og fínum innréttingum og þau höfðu borgað fyrir lítið herbergi en við fyrir Delux fjölskyldu svítu.

Við óskuðum eftir því að fá Comfort class pakkann endurgreiddan eftir 10 þús kr. boðið ykkar en þið hafið ekki einu sinni svarað pósti okkar, enda skiptum við ykkur ekki neinu máli en við hefðum viljað vera með þessar upplýsingar þegar við fjölskyldan vorum að ákveða sumarfríið okkar.“

Rúmin voru hörð, wi-fi varla nothæft ... lýsingar á aðstæðum eru ekki í nokkru samræmi við fyrirheitin. Þó þau hjá Nazar telji þetta á misskilningi byggt bjóða þau inneignarnótu, vegna sérstakra aðstæðna.
Misskilningur

Svo mörg voru þau orð. Vísir reyndi að ná sambandi við Nazar til að leita skýringa á þessu sem Hörður kallar vörusvik, náði ekki í neinn (blaðamaður gafst upp eftir alllanga bið á símkerfi fyrirtækisins). Vísir hefur hins vegar undir höndum bréfasamskipti Harðar og Nazar. Þau eru kurteisleg þar sem upplifun Harðar, Ernu Rósar og barna eru hörmuð, en málið allt er rakið til margþætts misskilnings: „Það eru margir punktar sem koma fram í kvörtunarbréfi þínu sem hefðu geta verið útskýrð betur því það virðist hafa átt sér stað miskilningur og falskar væntingar,” segir meðal annars í svarbréfi: „Það er alveg rétt hjá þér að slagorð okkar er „lúxusfrí fyrir alla“ og það er einnig það sem við viljum að gestir okkar upplifa. Hótelin okkar eru flokkuð upp í ólíka flokka. Premium Collection eru lúxushótelin okkar en Nazar Collection sem þið völduð er ekki talinn lúxus.“

Moskítóin í Tyrklandi

Í bréfinu er farið yfir ýmsar umkvartanir hjónanna, þær harmaðar en talið að rekja megi þetta til misskilnings: „Það er hræðilegt að sjá myndirnar af bitunum á fótunum þínum. Pegasos Word er staðsett nálægt skógi þar sem mikið er um moskító og bitin líta öðruvísi út en við erum vön á norðurlöndunum. Moskítóin í Tyrklandi eru ekki það sama og við erum vön að sjá. Að sjálfsögðu er það ekkert sem hótelið getur stjórnað en þau spreyja herbergin reglulega og einnig sér ríkið um það að spreyja utandyra svo að ekki sé eins mikið um moskítoflugur. Þú nefnir einnig hörð rúm. Í þessu tilfelli hefðu tildæmis farastjórar okkar getað aðstoðað ykkur, hefðuð þið aðeins haft samband við þá...”

Þá segir í bréfinu, eins og áður sagði, að ákveðið hafi verið að bæta Herði og fjölskyldu skaðann: „Við viljum endilega enda þetta mál á jákvæðan hátt og því viljum við gera undantekningu og hækka upphæðina á gjafakorti þínu. Við bjóðum ykkur 60.000 ISK, sem er nánast öll upphæðin á Comfort Class.

Vonandi þykir þér þetta ásættanlegt og við vonumst til þess að þú ferðist með okkur í framtíðinni.”

En, Herði þykir þetta ekki ásættanlegt, hann segist ekki ætla að þiggja inneignarnótuna, sem hann telur reyndar ekki einu sinni ná yfir verðið sem hann greiddi fyrir „comfort class-pakkann“ – þar sé um að ræða 21 þúsund krónur á mann, rúmar hundrað þúsund krónur auk trygginga.

Hinn glæsilegi Comfort pakki

Til glöggvunar eru þetta fyrirheitin um hinn ágæta Comfort Class-pakka, sem svo reis engan veginn undir væntingum:



Allt þetta færð þú með Comfort Class

•Fráteknir sólbekkir á ströndinni

•A la carte morgunmatur þrjá daga vikunnar, innifalinn er nýkreistur saf

•VIP innskráning við komu

•Frítt Internet í herberginu (Á ákveðnum hótelum er frítt Internet á herbergjunum án þess að þú hafr bókað Comfort Class, en þó alltaf fyrir hámark tvö tæki)

•Möguleiki á einni heimsókn aukalega á a la carte veitingastaði hótelsins

•Útskráning á brottfarardag seinkað til kl 18.00

•20% afsláttur á allar meðferðir í heilsulind

•Áfylltur minibar við komu (2 Cola, 1 Cola Light, 1 Fanta, 1 Sprite, 2 sódavatn, 1 l vatn)

•Baðsloppur og tvö pör af inniskóm

•Strandhandklæði í herberginu





Fleiri fréttir

Sjá meira


×