Innlent

Afhendir heiðursviðurkenningar til þýðenda íslenskra bókmennta

Atli Ísleifsson skrifar
Forseti Íslands mun afhenda nýja heiðursviðurkenningu til þýðenda íslenskra bókmennta á Bessastöðum síðar í dag.
Forseti Íslands mun afhenda nýja heiðursviðurkenningu til þýðenda íslenskra bókmennta á Bessastöðum síðar í dag. Vísir/GVA
Forseti Íslands mun afhenda nýja heiðursviðurkenningu til þýðenda íslenskra bókmennta á Bessastöðum klukkan 17 í dag.

Catherine Eyjólfsson, sem átt hefur ríka hlutdeild í að auka hróður íslenskra bókmennta í Frakklandi, og Erik Skyum-Nielsen, sem undanfarin fjörutíu ár hefur verið ötull og áhrifaríkur sendiherra íslenskra bókmennta í Danmörku, eru fyrst til að taka við viðurkenningunni.

Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, auk forsetaembættisisins standa að viðurkenningunni.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að heiðursviðurkenningin hafi hlotið nafnið Orðstír og verður veitt annað hvert ár, „einum eða tveimur einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. Hluti af viðurkenningunni er veglegur dvalarstyrkur sem er ætlað að auðvelda þýðendum að styrkja tengslin við íslenska menningu.“

Hefur þýtt tugi verka á dönsku

„Erik Skyum-Nielsen hefur þýtt tugi íslenskra verka á dönsku, þar á meðal fornsögur og eddukvæði en einnig ljóð, skáldsögur og leikrit eftir samtímahöfunda, m.a. Svövu Jakobsdóttur, Einar Má Guðmundsson, Thor Vilhjálmsson, Stefán Hörð Grímsson, Birgi Sigurðsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson og Gerði Kristnýju. Samhliða hefur Erik fjallað um íslenskar bókmenntir í ræðu og riti við margvísleg tækifæri.

Þýtt skáldsögur og ljóð á frönsku

Catherine Eyjólfsson hefur einnig þýtt tugi íslenskra verka, skáldsögur og ljóð á frönsku og meðal þeirra eru verk eftir mörg íslensk skáld, svo sem Auði Övu Ólafsdóttur, Einar Má Guðmundsson, Guðberg Bergsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Gyrði Elíasson, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Lindu Vilhjálmsdóttur, Pétur Gunnarsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sjón, Steinunni Sigurðardóttur og Svövu Jakobsdóttur.

Sum þessara verka hafa verið tilnefnd til virtra verðlauna, nú síðast þýðing Catherine á Svari við bréfi frá Helgu eftir Bergsvein Birgisson sem tilnefnd er til verðlauna sem háskólinn í Lille veitir höfundi og þýðanda í sameiningu.

Í stjórn verðlaunanna sitja Jón Karl Helgason, sem jafnframt er formaður, Kristjana Rós Guðjohnsen, Magnea Matthíasdóttir, Stella Soffía Jóhannesdóttir og Örnólfur Thorsson,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×