Innlent

Skurðstofa á kvennadeild opnuð á ný

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Starfsfólk verður flutt frá Landspítala í Fossvogi til kvennadeildarinnar.
Starfsfólk verður flutt frá Landspítala í Fossvogi til kvennadeildarinnar. vísir/gva
Skurðstofan á kvennadeild Landspítalans, sem Kristín Jónsdóttir yfirlæknir sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að hefði verið lokuð frá því í vor vegna skorts á skurðhjúkrunarfræðingum, verður opnuð á ný næstkomandi mánudag.

„Það var tekin ákvörðun um þetta í gær [þ.e. fyrradag],“ segir Þórgunnur Hjaltadóttir, mannauðsráðgjafi á aðgerðasviði og starfandi framkvæmdastjóri.

„Við fáum starfsfólk frá skurðstofum í Fossvogi þar sem er vel mannað. Við erum með svo frábært starfsfólk sem er tilbúið að færa sig. Þetta eru tveir til þrír skurðhjúkrunar­fræðingar sem eru þrautþjálfaðir og mjög færir og þeir munu koma til með að ganga í störfin hratt og vel,“ tekur Þórgunnur fram.

Hún getur þess að það sé ekki sjálfgefið að fólk ráði sig milli eininga. „Það er komið með ákveðna sérhæfingu þar sem það hefur starfað. Mér finnst fólk sýna mikla fagmennsku og sveigjanleika með því að gera þetta og sýna sjúklingunum virðingu.“

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeildinni, greindi frá því í viðtalinu við Fréttablaðið í gær að 238 konur biðu eftir aðgerð vegna blöðrusigs eða legsigs. Þær sem bíða eftir aðgerð vegna þvagleka eru 38. Alls bíða 180 konur eftir greiningu.

Þórgunnur segir Landspítalann glíma við vanda vegna skorts á skurðhjúkrunarfræðingum. „Við fengum þó til starfa marga af þeim 15 sem útskrifuðust úr slíku námi í febrúar síðastliðnum. Svo útskrifast 15 til viðbótar í febrúar 2017. Við bindum vonir við að fá stóran hóp þeirra til starfa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×