Fótbolti

Kristinn kom inn á sem varamaður í sigri Columbus

Tómas Þór Þórðarsn skrifar
Kristinn Steindórsson og félagar eru komnir á blað.
Kristinn Steindórsson og félagar eru komnir á blað. mynd/columbuscrewsc.com
Columbus Crew vann Toronto FC, 2-0, í fyrsta heimaleik liðsins á leiktíðinni í MLS-deildinni í fótbolta, en þetta er sjöunda tímabilið í röð sem Columbus vinnur fyrsta heimaleikinn.

Kristinn Steindórsson, sem byrjaði fyrsta leik Columbus þegar liðið tapaði fyrir Houston Dynamo á útvelli fyrir viku síðan, byrjaði á bekknum í nótt.

Miklum peningum hefur verið eytt í Toronto-liðið sem ætlar sér stóra hluti. Á miðjunni er t.a.m. Michael Bradley, miðjumaður bandaríska liðsins, og í framlínunni bandaríski landsliðsframherjinn Jozy Altidore.

Columbus fékk góða hjálp frá dómara leiksins sem rak Justin Morrow, leikmann Toronto, út af í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Morrow tæklaði Ethan Finley frábærlega þegar hann var að sleppa í gegn en dómarinn mat að hann hefði bara tekið manninn og sendi Morrow af velli.

Manni fleiri afgreiddu Columbus-menn leikinn á fjögurra mínútna kafla. Justin Meram skoraði með skalla á 57. mínútu eftir fyrigjöf Finlays frá hægri og fjórum mínútum síðar skoraði Kei Kamara með viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf Waylon Francis frá vinstri.

Justin Meram er í baráttunni við Kristinn um stöðuna á vinstri kanti Columbus. Meram var í banni í fyrsta leik tímabilsins eftir að fá rautt spjald í úrslitakeppninni í fyrra. Innkoma hans ýtti Kristni á bekkinn.

Kristinn kom inn á sem varamaður á 83. mínútu en kom lítið við sögu þær tíu mínútur sem hann spilaði.

Hér að neðan má sjá það helsta úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×