Innlent

Höfðu hendur í hári málverka-, höggmynda- og þjóðbúningaþjófa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Téður þjóðbúningur sem stolið var úr Ráðhúsi Reykjavíkur.
Téður þjóðbúningur sem stolið var úr Ráðhúsi Reykjavíkur. Mynd/Þjóðbúningastofa 7íhöggi ehf.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst nokkra þjófnaði í miðborginni undanfarna daga og komið hinum stolnu munum aftur í réttar hendur.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu greinir lögreglan frá því að þar á meðal séu fjögur málverk, sem var stolið frá hóteli, en þau fundust síðar á tveimur stöðum í borginni.

Karl á fertugsaldri var handtekinn vegna málsins og játaði hann sök. Skúlptúr var stolið úr Hallgrímskirkju og fannst listaverkið við húsleit nokkru síðar, en maður á sextugsaldri hefur gengist við brotinu.

Íslenskum kvenþjóðbúningi var stolið úr Ráðhúsinu um síðustu helgi, en búningurinn er kominn í leitirnar og var honum skilað í réttar hendur í morgun.

Kona á sextugsaldri játaði aðild að málinu. Þá hefur lögreglan endurheimt verkfæri, sem var stolið úr húsnæði í vesturbænum og telst málið sömuleiðis upplýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×