Sport

Þjálfarinn sem Gay klagaði úrskurðaður í átta ára bann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jon Drummond þarf að finna sér eitthvað annað að gera.
Jon Drummond þarf að finna sér eitthvað annað að gera. vísir/getty
Jon Drummond, fyrrverandi þjálfari spretthlauparans Tysons Gay, var í gær úrskurðaður í átta ára bann af bandaríska lyfjaeftirlitinu.

Drummond, sem vann gull með boðhlaupssveit Bandaríkjanna í 4x100 metra hlaupi í Sydney, var fundinn sekur um að hafa átt, selt og sprautað ólöglegum lyfjum í íþróttamenn sem hann þjálfaði.

Bannið tók gildi í gær, daginn sem hann var fundinn sekur, og má hann ekki koma nálægt frjálsíþróttum næstu átta árin, en hann er 46 ára gamall.

Fyrr á þessu ári var Gay úrskurðaður í eins árs keppnisbann þegar anabólískir sterar fundust í þvagsýni hans.

Bannið var stytt verulega því Gay veitti bandaríska lyfjaeftirlitinu upplýsingar sem leiddu til þess að mál var sótt gegn Drummond og hann á endanum fundinn sekur.

Þetta er fjórum sinnum lengra bann en íþróttamenn eru vanalega úrskurðaðir í fyrir svipuð brot, en lyfjaeftirlit Bandaríkjanna tekur hart á því þegar þjálfarar misnota aðstöðu sína

„Þjálfarar eiga að vernda íþróttamenn, ekki notfæra sér þá. Þeir eiga að sjá til þess að íþróttamennirnir njóti stuðnings, æfi vel og veita þeim góð ráð sem hjálpa þeim að vinna heiðarlega,“ segir Travis Tygart, framkvæmdastjóri lyfjaeftirlitsins.

Drummond má ekki þjálfa eða leiðbeina frjálsíþróttamönnum á meðan banninu stendur, en bannið var samþykkt af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu og gildir því um allan heim, ekki bara í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×