Lífið

Halda upp á afmæli Paul McCartney

Baldvin Þormóðsson skrifar
Bítladrengirnir blíðu.
Bítladrengirnir blíðu.
Í tilefni 72 ára afmæli Sir Paul McCartney þá hafa Bítladrengirnir ákveðið að halda tónleika á Ob-La-Dí-Ob-La-Da í kvöld klukkan 22:00.

Ob-La-Dí er einn skemmtilegasti staður sem ég hef spilað á, segir Gunnar Þórðarson, einn sérstakra gesta Bítladrengjanna en ásamt honum munu einnig koma fram Egill Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon.Það er alltaf svo góð stemning þarna og góður hljómur fyrir mann að spila og syngja, bætir Gunnar við.

Á tónleikunum verða rifjuð upp helstu verk Paul McCartney og Bítlanna, meðal annars Abbey Road svítan víðfræga. Bítladrengina skipa þeir Ásgeir Óskarsson, trommuleikari, Eðvarð Lárusson, gítarleikari, Magnús R. Einarsson, gítar- og mandólínleikara og Tómas Magnús Tómasson, bassaleikari.

Staðurinn Ob-La-Dí-Ob-La-Da hefur verið starfræktur í rúm fjögur ár og hefur staðurinn alla tíð verið helgaður minningu Bítlanna, bæði með tónlist og myndlist og fjölmargar myndir eftir ýmsa listamenn prýða staðinn.

Eins og áður hefur komið fram þá hefjast tónleikarnir klukkan 22:00 og er Ob-La-Dí staðsettur að Frakkastíg 8.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.