Innlent

Maður með hníf handtekinn í blokkaríbúð í Breiðholti, og vagnstjóri í strætó sleginn í andlitið

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
Fjörug nótt í Reykjavík
Fjörug nótt í Reykjavík
Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um tíuleitið í gærkvöldi var maður á fimmtugsaldri handtekinn skammt frá Hlemmtorgi eftir að neyðarkall barst lögreglu frá strætó.

Maðurinn hafði slegið vagnstjóra í andlitið og hrækt framan í hann.

Að sögn lögreglu var maðurinn í annarlegu ástandi og gistir nú fangageymslu.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan vagnstjórans. Árásarmaðurinn veitti mikla mótspyrnu við handtöku og hafði í hótunum við lögreglumenn.

Um ellefu leitið var síðan annar karlmaður á fimmtugsaldri handtekinn í stigagangi í fjölbýlishúsi í Bökkunum í Breiðholti en hann var með háreysti á stigagangi blokkarinnar þar sem hann var að reyna að ná sambandi við fyrrum sambýliskonu sína. Hann sparkaði látlaust í hurð á stigaganginu og var á endanum hleypt inn.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang fannst stór hnífur í fórum mannsins. Hann var handtekinn, vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður seinna í dag.

Nóttin gekk þó að öðru leyti vel og áfallalaust og verður það að teljast nokkuð gott, miðað við þann mikla mannfjölda sem var í bænum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×