Sport

Fiðlusnillingur keppir í svigi í Sochi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vanessa-Mae.
Vanessa-Mae. Vísir/AFP
Vanessa-Mae leggur fiðluna til hliðar um stundarsakir á meðan hún keppir í svigi fyrir hönd Tælands á Vetrarólympíuleikunum í Sochi sem hefjast 7. febrúar.

Vanessa-Mae verður aðeins þriðji Tælendingurinn til þess að keppa á vetrarleikunum en hún er gjaldgeng þar sem faðir hennar er tælenskur. Hún er þó uppalin í Englandi.

Vanessa-Mae skaust fram á sjónarsviðið um miðjan tíunda áratug síðustu aldar sem rokktónlistarmaður með fiðlu í hönd. Setti hún klassíska tónlist í fjörugri búning og náði plata hennar, „The Violin Player“, í ellefta sæti á breska sölulistanum árið 1995 með yfir tíu milljónir eintaka seld.

Skíðakappinn tryggði sér þátttökuréttinn eftir að hafa lokið fjórum svigmótum í Slóveníu um síðustu helgi. Í samtali við Reuters segist hún hafa stundað skíðaíþróttina frá fjögurra ára aldri.

Vetrarólympíuleikarnir í Sochi standa yfir frá 7.-23. febrúar og verða í beinni útsendingu á sportrásum Stöðvar 2 og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×