Lífið

Verður samkynhneigður í einn dag

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Davíð Berndsen ætlar að taka upp kynþokkafullt myndband.
Davíð Berndsen ætlar að taka upp kynþokkafullt myndband. mynd/magnús elvar
„Mig langar að prófa að vera samkynhneigður í einn dag og þótti alveg kjörið að nýta mér komu bjarnanna,“ segir tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen, sem tekur upp tónlistarmyndband um helgina. Verður það tekið upp í miðbæ Reykjavíkur og nýtur Davíð aðstoðar um 150 samkynhneigðra manna. GayIceland greindi fyrst frá.

„Mér skilst að þetta sé kallað Bears on Ice-hátíð, þegar fjöldi samkynhneigðra manna kemur hingað til lands til þess að eiga góðar stundir. Ég hlakka mikið til að eiga góðar stundir með þeim.“

Lagið samdi hann um samkynhneigðan vin sinn og á væntanlegt myndband vel við lag og texta. „Lagið er mjög kynþokkafullt og ég tek alltaf af mér beltið og nota það sem svipu þegar ég flyt það á tónleikum,“ bætir Davíð við léttur í lundu.

En hvað segir konan þín við því að þú ætlir að vera samkynhneigður í einn dag? „Konan mín styður mig og leyfir mér að gera allt fyrir listina. Ég er samt ekkert svo hræddur um að snúast alveg en þetta á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Davíð hefur í nógu að snúast á næstunni og er á leið í mánaðarlangt tónleikaferðalag um Evrópu ásamt FM Belfast. „Maður verður bara eins og sjómaður og hverfur í mánuð. Við erum einnig að fara spila á Reeperbahn-hátíðinni í Þýskalandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.