Erlent

Fimm handteknir og 22 látnir

Brjánn Jónasson skrifar
Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á Indlandi og freistast verktakar oft til að brjóta byggingarreglugerðir til að græða meira.
Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á Indlandi og freistast verktakar oft til að brjóta byggingarreglugerðir til að græða meira. Fréttablaðið/AP
Að minnsta kosti 22 eru látnir eftir að tvær stórar byggingar hrundu á Indlandi á laugardag. Tugir eru taldir fastir í rústunum. Fimm stjórnendur verktakafyrirtækis sem reisti aðra bygginguna voru handteknir.

Björgunarmenn notuðu logsuðutæki og skóflur til að reyna að bjarga fólki úr rústunum. Talið er að það geti tekið einhverja daga til viðbótar að ná öllum úr rústunum og því líklegt að tala látinna muni hækka á næstu dögum.

Talið er að nærri 90 verkamenn hafi verið í kjallara annarrar byggingarinnar. Þeir voru að sækja laun sín á laugardag þegar ellefu hæða byggingin hrundi til grunna. Ástæður þess að hún hrundi eru ekki ljósar. Á fjórða tug manna höfðu í gær verið grafnir út úr rústunum. Fjórir voru þegar látnir og sjö til viðbótar létust af meiðslum sínum eftir komuna á spítala.

Fjögurra hæða bygging hrundi fyrr um daginn, og létust ellefu í því slysi, auk þess sem einn er alvarlega slasaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×