Lífið

Íslenska í japönsku sjónvarpi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Arnór Dan Arnarson syngur tónlist í nýrri japanskri þáttaröð.
Arnór Dan Arnarson syngur tónlist í nýrri japanskri þáttaröð. vísir/valli
„Á tónleikaferðalagi með Óla Arnalds í Japan á árinu, fór ég á fund með Íslandsvininum Yuka Ogura, sem er nokkurs konar framleiðslustjóri þáttanna, því aðstandendur þáttanna vildu fá mig til að syngja hluta tónlistarinnar,“ segir tónlistarmaðurinn Arnór Dan Arnarson. Hann syngur þrjú lög í nýrri japanskri teiknimyndaþáttaröð sem ber nafnið Terror in Resonance.

Um er að ræða nýja teiknimyndaþáttaröð sem er nokkurs konar spennutryllir með yfirnáttúrulegu ívafi fyrir börn og fullorðna. „Þau vildu hafa íslenska tungumálið í þættinum. Íslenska málið og íslensk tónlist hefur verið þeim innblástur,“ segir Arnór Dan og hlær.

Hann er þó ekki eini Íslendingurinn sem kemur að þáttunum því fleiri íslenskir tónlistarmenn leggja hönd á plóg. Birgir Jón Birgisson sá um upptökurnar sem fram fóru í stúdíóinu Sundlauginni og Bragi Valdimar Skúlason bjó til íslenska texta. Magnús Trygvason Eliassen spilar á trommur, Andri Ólafsson á bassa, Hilmar Jensson á gítar og þá stjórnar Borgar Magnússon strengjasveit.

Þættirnir fara í sýningu í júlí og verða sýndir á einni vinsælustu sjónvarpsstöð í Japan, Fuji TV og því ljóst að allmargar margar milljónir manna muni sjá og heyra í íslenska tónlistarfólkinu.

„Ég hef alltaf elskað anima-teiknimyndir þannig að þetta er mikill heiður fyrir mig og því svo sannarlega æskudraumur að rætast.“

Leikstjóri þáttanna Shinichir Watanabe er þekktur fyrir leikstjórn þátta á borð við Cowboy Bebop and Samurai Champloo.

Höfundar tónlistar er Yoko Kanno en hún samdi tónlistina fyrir þætti á borð við Darker than Black, Macross Plus, Cowboy Bebop, Ghost in the Shell: Stand Alone Complex ásamt fyrir hina ýmsu tölvuleiki og kvikmyndir.

Kazuto Nakazawa teiknar þættina. Hann teiknaði teiknimyndahluta í kvikmyndinni Kill Bill Volume 1 og einnig tónlistarmyndband Linkin Park við lagið Breaking the Habit en það má sjá hér að neðan.

Hér má kynna sér þættina og tónlistina frekar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.