Erlent

Fimmtíu milljónir manna á flótta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttamannabúðir í Kúrdahéruðum Íraks, skammt frá borginni Arbil. Fjöldi fólks hefur forðað sér eftir að herskáir íslamistar hófu stórsókn og hafa á skömmum tíma náð stórum hluta landsins á sitt vald.nordicphotos/AFP
Flóttamannabúðir í Kúrdahéruðum Íraks, skammt frá borginni Arbil. Fjöldi fólks hefur forðað sér eftir að herskáir íslamistar hófu stórsókn og hafa á skömmum tíma náð stórum hluta landsins á sitt vald.nordicphotos/AFP
Alls voru 51,2 milljónir manna á flótta á heimsvísu um síðustu áramót. Þetta er í fyrsta sinn frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar sem fjöldi flóttamanna fer yfir 50 milljónir. Frá þessu er skýrt í skýrslu sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna birtir í dag.

Í skýrslunni kemur fram að flóttamönnum hafi fjölgað um sex milljónir frá ársbyrjun til ársloka 2013. Mestan þátt í þessari fjölgun á borgarastyrjöldin í Sýrlandi, en alls hafa 2,5 milljónir Sýrlendinga hrakist úr landi vegna átakanna og 6,5 milljónir að auki eru á flótta innan landamæranna. Alls eru því níu milljónir Sýrlendinga, eða meira en þriðjungur þjóðarinnar, á flótta vegna borgarastyrjaldarinnar.

Töluverður fjöldi fólks hefur einnig hrakist að heiman í Afríkuríkjum á síðasta ári. Einkum munar þar um ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu og svo undir lok ársins í Suður-Súdan.

Þrír meginhópar flóttamanna

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þrjá meginhópa flóttamanna. Hinir eiginlegu flóttamenn, sem svo eru skilgreindir í skýrslum, eru 16,7 milljónir. Þeir hafa allir hrakist úr landi.

Til viðbótar þeim kemur fólk sem er á flótta innan eigin landamæra, en þetta er fjölmennasti hópurinn. Alls voru 33,3 milljónir manna á vergangi í eigin landi í lok síðasta árs. Oft eiga hjálparstofnanir erfiðast með að koma þessum hópi til aðstoðar, því hann er að stórum hluta fastur innan átakasvæða.

Þriðji hópurinn er svo hælisleitendur, en þeir voru 1,1 milljón í lok ársins.





Flóttafólk á Filippseyjum Kona á sjötugsaldri gefur barnabarni sínu mat í flóttamannabúðum á Filippseyjum. Fjölskyldan hraktist að heiman eftir að átök brutust út í Maguindanao-héraði. Hún segir að einu sinni á dag sé matarskammti úthlutað.Mynd/UNHCR
Vandinn orðinn illviðráðanlegur

Samtals eru þetta 51,2 milljónir manna. Fjöldinn er orðinn það mikill að Flóttamannastofnunin á orðið í mestu erfiðleikum með að ráða við vandann. Verulega reynir þar á styrktaraðila stofnunarinnar.

Stór hluti byrðarinnar hefur lent á þeim löndum sem eru í næsta nágrenni við helstu átakasvæði heims. Geta þeirra til að hýsa flóttafólk er oft harla takmörkuð.

Fjölmennustu hópar flóttamanna eru Afganar, Sýrlendingar og Sómalar, en samtals eru þeir um helmingur allra flóttamanna í heiminum. Þau lönd sem hafa tekið við flestum flóttamönnum undanfarið eru Pakistan, Íran og Líbanon.

Í flóttamannabúðum í Búrkína Fasó Þessi kona frá Malí hefur fundið skjól í flóttamannabúðunum Sag-Nionogo í Búrkína Fasó. Þar eru þúsundir manna sem hröktust að heiman vegna ofbeldismanna í norðanverðu Malí.Mynd/UNHCR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×