Lífið

Seldi frisbídiska úr skottinu á bílnum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Haukur Árnason hefur komið að Íslandsmótinu í frisbígolfi síðustu tíu ár.
Haukur Árnason hefur komið að Íslandsmótinu í frisbígolfi síðustu tíu ár.
„Ég var búinn að vera að selja frisbídiska úr skottinu í tíu ár en síðan var skottið ekki nógu stórt lengur,“ segir frisbígolfáhugamaðurinn Haukur Árnason. Hann ákvað að leggja allt undir og opna frisbígolfbúð í Hafnarfirði í apríl og segir hana tvímælalaust vera skemmtilegustu búð landsins. 

„Við ákváðum að opna svona rétt fyrir vorið og það hefur verið mjög líflegt, enda mikil gróska í íþróttinni,“ segir Haukur. ,,Það hefur verið mjög jöfn og þétt aukning í sportinu síðan Klambratúnsvöllurinn kom, hann var eiginlega þrepið sem hleypti öllu af stað.“

Frisbígolfvöllurinn á Klambratúni er nú að hefja sitt fjórða starfssumar og frá stofnun fullyrðir Haukur að leikmenn hafi farið úr því að vera í kringum þrjátíu og vel yfir þúsund manns. „Það er vel ásættanlegt á fjórum árum.“ 

Haukur Árnason FrisbíGolf búðin
Haukur hefur haldið Íslandsmót síðastliðin tíu ár ásamt fleiri áhugamönnum en síðast tóku um fimmtíu manns þátt í mótinu.

„Við vorum síðan sjö sem fórum saman á breska meistaramótið í maí,“ segir Haukur og bætir því við að þeir yngri hafi verið að sækja í sig verðrið. „Ég er náttúrulega bara orðinn gamall og þreyttur,“ segir Haukur og hlær. „Þessir ungu eru að koma hratt upp.“

Haukur segir að það séu ekki bara einstaklingar sem koma til hans að stíga sín fyrstu skref í frisbígolfi heldur vilja mörg fyrirtæki gera íþróttina að fyrirtækjasportinu.

„Það kom fyrirtæki um daginn og keypti sex byrjendasett til að eiga á skrifstofunni sem er nálægt Klambratúni svo starfsfólkið geti skotist út í hádeginu,“ segir Haukur og bætir því við að honum þyki þetta sniðugt framtak hjá fyrirtækjum. Frisbígolfbúðina er að finna í Hafnarfirði á Reykjavíkurvegi 60 og kostar diskurinn á bilinu tvö til fjögur þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.