Lífið

Troðfylla Þingvallakirkju

Baldvin Þormóðsson skrifar
Þingvallakirkja þykir ein fallegasta kirkja á Íslandi.
Þingvallakirkja þykir ein fallegasta kirkja á Íslandi. mynd/einkasafn
„Þetta er minningarsjóður sem var stofnaður fyrir átta árum,“ segir Einar Jóhannesson klarínettuleikari sem heldur tónleikaröðina Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju í minningu móðursystur sinnar sem var Þingvellingur frá Kárastöðum.

„Hún hafði verið organisti þegar hún var ung kona í Þingvallakirkju,“ segir Einar. „Þegar hún lést 2004 þá voru einhverjir aurar eftir sem var óráðstafað og þá kom upp sú hugmynd að stofna minningarsjóð til að efla tónlist við Þingvallakirkju.“

Þetta er í áttunda skipti sem tónleikaröðin er haldin og segir Einar alltaf hafa verið líflega stemningu á tónleikunum þrátt fyrir hversu lítil kirkjan sé.

„Hún tekur svona fimmtíu manns í sæti og það getur verið vandasamt að koma tónlistarmanninum fyrir,“ segir Einar og hlær. „Þetta er vanalega einleikari eða í mesta lagi fjórir uppi við altarið í hvert skipti,“ segir Einar en á 17. júní eru aðrir tónleikar í tónleikaröðinni og er það fiðluleikarinn Rut Ingólfsdóttir sem mun standa ein og leika verk eftir Jón Leifs, Béla Bartók og Johann Sebastian Bach.

Rut er sem kunnugt er einn öflugasti tónlistarmaður Íslendinga og hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi, ekki síst með starfi sínu með Kammersveit Reykjavíkur. Aðgangur er ókeypis og hefjast tónleikarnir annað kvöld klukkan 20.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.