Innlent

Um 61% vill fá Dag

Brjánn Jónasson skrifar
Mynd/Fréttablaðið
Mikill meirihluti borgarbúa, 61 prósent, vill að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði næsti borgarstjóri Reykjavíkur samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Um 16,8 prósent borgarbúa vilja að Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, verði næsti borgarstjóri. Aðrir njóta mun minni hylli. Athygli vekur að aðeins 68 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja Halldór í borgarstjórastólinn. Þá vill aðeins fjórðungur stuðningsmanna Bjartrar framtíðar að oddviti framboðsins S. Björn Blöndal verði borgarstjóri. Í heildina vilja 5,9 prósent að Björn leiði borgina.

Hringt var í 2.118 manns þar til náðist í 1.504 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki 27. og 28. maí. Svarhlutfallið var 71 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Spurt var: Hver vilt þú að verði borgarstjóri eftir kosningarnar? Alls tóku 51,9 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.

Þá vilja 3,1 prósent svarenda að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti Framsóknar og flugvallarvina setjist í borgarstjórastólinn en aðeins 1,2 prósent vilja Halldór Auðar Svansson oddvita Pírata.

Aðeins 0,1 prósent óska þess að Þorleifur Gunnarsson oddviti Dögunar í Reykjavík verði borgarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×