Menning

Alþýðumenningarhátíð, pönk og veggjalist í Kópavogi

Marín Manda skrifar
Arna Schram Forstöðumaður Listhúss Kópavogs hvetur Kópavogsbúa til að mæta á hátíðina.
Arna Schram Forstöðumaður Listhúss Kópavogs hvetur Kópavogsbúa til að mæta á hátíðina.

Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogs, hvetur Kópavogsbúa til að njóta menningarhátíðarinnar í vikunni. Hátíðin verður með fjölbreyttara sniði en undanfarin ár.

„Þetta er árleg menningarhátíð í Kópavogi en í ár er hún öflugri og fjölbreyttari, ekki síst vegna þeirrar nýjungar að við auglýstum eftir listamönnum til að vera með viðburði. Við viljum að frumkvæðið komi frá listamönnunum sjálfum og fengum í kjölfarið fjölda umsókna, sem styrkir hátíðina verulega,“ segir Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogs.

Hátíðin sem haldin er í ellefta sinn byrjar á morgun, 8. maí, og stendur til 11. maí. Meðal þess sem boðið verður upp á á hátíðinni er pönk, gjörningar, veggjalist, gítarspil, myndlist, gönguferðir, dans og leiklist.

Fræbbblarnir á æfingu forðum daga.

„Markmið hátíðarinnar er að gefa bæjarbúum tækifæri á að njóta afraksturs lista- og menningarlífs sem fram fer í bænum allan ársins hring og dagskráin endurspeglar það vel að okkar mati.“
Arna bendir á að ljóðlistin hafi verið í hávegum höfð í Kópavogi og þykir því áhugavert að sjá listakonuna Kristínu Þorláksdóttur mála stórt fígúratívt veggverk með vísun í ljóð Jóns úr Vör. Pönkið á Íslandi á jafnframt sterkar rætur í Kópavogi og mun skipa stóran sess á menningarhátíðinni.

Annað kvöld mæta upphafsmenn pönktónlistarinnar á Bretlandi og á Íslandi á skemmtistaðinn Spot og halda tónleika. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.00 og fram koma meðal annars Q4U, Fræbbblarnir og Glen Matlock, bassaleikari The Sex Pistols, sem er heiðursgestur pönkhátíðarinnar.

Ókeypis er inn á flesta viðburði hátíðarinnar og nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á síðunni kopavogsdagar.is.




Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.