Innlent

ESB liðkaði fyrir samningum með breyttum reglum

Brjánn Jónasson skrifar
Skýrsluhöfundar fjölluðu um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB á fundi á Grand Hóteli í gær.
Skýrsluhöfundar fjölluðu um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB á fundi á Grand Hóteli í gær. Fréttablaðið/GVA
Ekki er reynt að spá fyrir um niðurstöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál í nýrri skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við ESB. Þar er þó bent á að Ísland geti vísað í ýmis fordæmi fyrir kröfum í þessum málaflokki.

Skýrslan var unnin fyrir Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Vinna við skýrsluna hófst á haustmánuðum í fyrra, og var skýrslan kynnt í gær.

Samningsmarkmið Íslands í sjávarútvegsmálum hafa ekki verið sett fram. Kaflinn um sjávarútvegsmál komst aldrei á dagskrá áður en hlé var gert á aðildarviðræðunum vegna makríldeilunnar.

Í skýrslunni er fjallað um þrjú atriði sem Ísland myndi líklega sækja fast að fá undanþágu fyrir eða sérlausnir.

Í fyrsta lagi myndi Ísland gera kröfu um sjálfstætt fiskveiðistjórnunarkerfi. Í öðru lagi myndu stjórnvöld vilja takmarka fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Í þriðja lagi yrði gerð krafa um að Ísland fari með samninga við önnur ríki um nýtingu fiskistofna í stað þess að ESB semji fyrir Íslands hönd.

Samningamenn Íslands myndu hafa sterk rök fyrir því að halda stjórn yfir fiskveiðilögsögunni á Íslandi, að mati skýrsluhöfunda. Þar skiptir miklu að fiskveiðilögsagan liggur ekki að lögsögu aðildarríkis ESB, og flestir fiskistofnar innan hennar eru staðbundnir.

Þá geta samningamennirnir vísað í reglugerð sem sett var 2011. Þar er ESB heimilað að framselja vald til að ákveða aflaheimildir í stofnum sem aðeins eitt ríki sækir í.

Í skýrslunni er vísað til þess að litlar skýringar séu á tilkomu þessa ákvæðis. Ole Poulsen, einn reyndasti sérfræðingur Dana um sjávarútvegsstefnu ESB, segir það hafa verið skilningurinn „á göngunum“ í Brussel að ákvæðið hafi verið sett inn með umsókn Íslands í huga. Markmiðið hafi því verið að opna glufu fyrir íslensku samningamennina.

Engar undanþágur eða sérlausnir ætti að þurfa til að halda fyrirtækjum í sjávarútvegi í höndum Íslendinga. Í skýrslunni er bent á að ESB hafi engar athugasemdir gert við lög í Bretlandi og Danmörku sem takmarki fjárfestingar annarra en þeirra sem búsettir eru í landinu í sjávarútvegi.

Þriðja atriðið gæti reynst erfitt. Lítill vilji virðist vera til þess innan ESB að Íslendingar fái sjálfir að vera í forsvari í samningum um nýtingu fiskistofna við önnur ríki. Það er talið grafa undan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, og mögulega setja fordæmi sem önnur ríki gætu vísað til á öðrum vettvangi.

Embættismenn ESB bentu skýrsluhöfundum á að þótt samningarnir væru á forræði ESB væru það fulltrúar þess ríkis eða þeirra ríkja sem hefðu hagsmuna að gæta sem réðu ferðinni. ESB tæki ekki ákvarðanir á skjön við hagsmuni þeirra ríkja sem ættu hagsmuna að gæta.

Höfum þegar fengið sérlausnir

Ísland hefur þegar náð fram sérlausnum, undanþágum og/eða aðlögunarfrestum í mörgum málum. Í skýrslunni segir að þær byggi að mestu á því sem hafi áður fengist í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Erfiðustu málin eru gjarnan geymd þar til síðast og því hefur ekki komið í ljós hvernig helstu hagsmunamál Íslands hefðu endað. „Þó liggur fyrir að öll ný aðildarríki hafa hingað til getað samið um sérlausnir um ákveðin málefni er hafa legið þeim þyngst á hjarta og snerta mestu hagsmuni ríkjanna,“ segir í skýrslunni. Þar segir að í viðtölum við embættismenn ESB hafi komið fram að skilningur væri á sérstöðu Íslands, en ekki yrði gefið í skyn að eftirgjöf fengist í tilteknum málum fyrirfram, enda sé slíkt ekki góð samningatækni.

Þá er bent á að „háttsettur embættismaður hjá stækkunardeild ESB“ hafi bent á að það væru fordæmi fyrir því að nýjar grundvallarreglur væru skrifaðar inn í aðildarsamning. Þær verði svo hluti af grundvallarreglum ESB eftir að aðildarsamningurinn taki gildi.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar, hlýddu á kynningu skýrslunnar í gær. Fréttablaðið/GVA
Gæti tekið tvö til þrjú ár að taka upp evruna

Ísland ætti að geta tekið upp evru tveimur til þremur árum eftir inngöngu í Evrópusambandið að mati höfunda skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Til að taka upp evruna þyrfti Ísland að uppfylla skilyrði um lága verðbólgu, aðhald í ríkisfjármálum og tengingu íslensku krónunnar við evruna í að minnsta kosti tvö ár. Ekki verður önnur ályktun dregin af reynslu Íslands af fastgengi en að Ísland ætti að geta lokið því ferli á tveimur til þremur árum, segir í skýrslunni.

Afnám gjaldeyrishafta verður eitt helsta samningamálið haldi aðildarviðræður Íslands og ESB áfram. ESB hefur nokkrar leiðir til að auðvelda lausn haftanna, en slík aðstoð myndi ráðast á lokametrum aðildarviðræðna, segja skýrsluhöfundar. Slík aðstoð myndi vera undir eftirliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Gjaldeyrishöftin eru nauðsynleg vegna þess að takmörk eru fyrir því hversu mikil verðmæti er hægt að flytja frá einu myntsvæði til annars á skömmum tíma. Yrðu höftin afnumin er hætta á verulegu flæði fjármagns úr landi, sem myndi lækka gengi krónunnar með tilheyrandi rýrnun á lífskjörum og skaða fyrir hagkerfið.

Þessi vandi myndi hverfa með upptöku evru, segir í skýrslu Alþjóðamálastofnunar. Snjóhengjuna svokölluðu mætti leysa liggi fyrir að myntskipti muni fara fram innan ákveðins tíma.

Í skýrslunni er rakið að Ísland hafi áður afnumið gjaldeyrishöft að kröfu ESB. Það hafi verið gert við inngöngu í EES árið 1994. „Í kjölfar þess streymdi mikið af erlendu fjármagni inn í landið, sem nær ekkert lát var á í nær 15 ár. Öll líkindi eru til þess að stjórnvöld geti náð fram sömu áhrifum nú með því fyrirheiti að verða hluti af myntbandalagi Evrópu,“ segir í skýrslunni.

Það er alltaf fórn að gefa eftir sjálfstæði í peningamálum. Þegar gengið hefur verið fest, eða evran tekin upp, geta stjórnvöld ekki mildað hagsveiflur með því að fella gengið. Það þýðir að sveiflur í atvinnuleysi yrðu meiri þó til lengri tíma ætti atvinnuleysið ekki að vera meira.

Á móti yrði Seðlabanki Íslands útibú Evrópska seðlabankans og fengi heimild til að prenta evrur. „Prentvald í evrum [myndi] valda byltingu fyrir heimili og atvinnulíf þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur hyrfu í einni andrá. Innganga inn á sameiginlegt myntsvæði mun einnig leiða til aukinnar samkeppni á fjármálamarkaði og lægri vaxta,“ segir í skýrslunni.

„Þegar allt þetta er dregið saman, auk þess að taka tillit til þess mikla viðskiptaábata sem alþjóðleg og greiðsluhæf mynt getur sannanlega fært smáþjóðum, verður ekki önnur ályktun dregin en að upptaka evru með aðild að myntbandalagi Evrópu muni fela í sér gríðarlegan velferðarábata fyrir Ísland.“

Benedikt Jóhannesson, Gylfi Arnbjörnsson og Þórólfur Matthíasson stinga saman nefjum.Fréttablaðið/GVA
Viðræðuslit minnka áhrif Íslands innan EES

Það gefur Íslandi aukna möguleika til að gæta hagsmuna sinna í EES-samstarfinu að halda aðildarumsókn Íslands að ESB opinni, jafnvel þó viðræður liggi niðri, að því er segir í skýrslu ­Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar.

Sé Ísland með stöðu umsóknarríkis hafa fulltrúar Íslands betri aðgang að áhrifamönnum innan stjórnsýslu ESB en þeir hefðu ella. Viðræðuslit myndu því minnka áhrif Íslands innan EES.

Auðvelt verður að hefja aðildarviðræður Íslands við ESB að nýju þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á viðræðunum, að því er fram kemur í skýrslunni. Langt hlé getur þó valdið því að vinnan við samninginn úreldist, þar sem lög ESB taka breytingum.

Annað verður uppi á teningnum ákveði stjórnvöld að draga umsókn Íslands til baka, enda þyrfti þá að afla samþykkis allra aðildarríkja á ný, og endurtaka svo öll fyrri skref ferlisins.

Valið stendur ekki milli þess að ganga í ESB eða standa utan þess, heldur milli aðildar og þess að vera áfram aðili að EES. Skýrsluhöfundar telja EES-samninginn virka „allvel“, þó hann hafi sína galla. Þar má nefna svokallaðan lýðræðishalla, sem ómögulegt er að laga nema breyta samningnum. Nær engar líkur eru á því að samningurinn verði uppfærður í fyrirsjáanlegri framtíð, en um leið bendir ekkert til þess að einhver telji ástæðu til að hafa frumkvæði að því að segja honum upp.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×