Innlent

Sigmundur Davíð með 16,7% svörun en Kristján Þór 87,5%

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur gagnrýnt Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir óhóflegan drátt á því að bregðast við beiðnum um sérstaka umræðu í þinginu.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur gagnrýnt Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir óhóflegan drátt á því að bregðast við beiðnum um sérstaka umræðu í þinginu. Fréttablaðið/GVA
Með því að taka þátt í sérstakri umræðu um stöðu aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið um miðjan janúar hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra brugðist við 16,7 prósentum beiðna þingmanna sem beint hefur verið til hans um þátttöku í sérstökum umræðum á þinginu á yfirstandandi kjörtímabili.

Lægra svarhlutfall er bara að finna hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, núll prósent, en hann hefur ekki orðið við einu beiðninni sem beint var til hans.

Langhæst svarhlutfall er hjá Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra, 87,5 prósent, en hann hefur verið til svara í sjö umræðum af þeim átta sem hann hefur verið beðinn um að vera viðstaddur.

Athygli vakti í fyrradag þegar Guðmundur Steingrímsson, þingmaður og formaður Bjartrar framtíðar, kvaðst ekki bíða lengur eftir að forsætisráðherra brygðist við beiðni um umræðu frá honum og beindi erindi sínu frekar til fjármálaráðherra.

„Árni Páll fékk hann til að mæta í sérstaka umræðu um stöðu aðildarviðræðna við ESB 16. janúar. Hann bíður hins vegar enn eftir að Sigmundur svari hvort hann ætli að mæta í umræðu um kjarasamninga, sem Árni Páll bað um fyrir margt löngu,“ segir Guðmundur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tekið þátt í einni sérstakri umræðu á Alþingi á kjörtímabilinu. Fréttablaðið/Daníel
Sjálfur segist hann hafa beðið í fimm mánuði eftir að forsætisráðherra mætti í umræðu um fullveldishugtakið áður en hann gafst upp. Þingmenn geta bara lagt fram eina beiðni í einu um sérstaka umræðu. Guðmundur lagði í framhaldinu fram beiðni um sérstaka umræðu um gjaldeyrishöftin, en beindi henni svo til Bjarna Benediktssonar í staðinn. 

Að auki bíður Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sérstakrar umræðu um menningarminjar í tengslum við styrki til húsverndar og Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, umræðu um hleranir. 

Annars segist Guðmundur telja að það ætti að vera Sigmundi Davíð áhyggjuefni hversu fáar fyrirspurnir hann fái, til dæmis borið saman við fjármálaráðherra. „En þar sem þær eru ekki fleiri hefði maður haldið að hann hefði tíma til að svara.“

Segir forsætisráðherra síður fá beiðnir

Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, bendir á að Björt framtíð hafi beðið um 12 sérstakar umræður við ráðherra, fengið átta og þrjár hafa verið kallaðar aftur. 

„Það er því aðeins ein beiðni BF um sérstakar umræður við ráðherra sem bíður. Beiðnum BF um sérstakar umræður við ráðherra hefur því í heild verið mjög vel sinnt,“ segir hann. 

Í almennu samhengi sé einnig mjög eðlilegt að forsætisráðherra fái fæstar beiðnir um sérstakar umræður þar sem hann fari með fæsta málaflokka. Í því ljósi geti tæplega talist sanngjarnt að setja mál fram með þeim hætti að forsætisráðherra hafi bara tekið þátt í einni af 46 sérstökum umræðum sem farið hafi fram á kjörtímabilinu. 

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis hafi nú bara beðið forsætisráðherra beiðni Guðmundar Steingrímssonar um umræðu um afnám gjaldeyrishafta og samninga við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna. 

„Hún hefur nú verið afturkölluð og færð á fjármálaráðherra enda hefði málshefjandi mátt vita að hún væri betur vistuð þar, eða vissi hann ekki að forræði afnáms gjaldeyrishafta er hjá fjármálaráðherra?“ segir Sigurður Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×