Innlent

Spurningarnar skipta mestu máli

Jóhanna Margrét Einarsdóttir. skrifar
 Umdeild þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka er komin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd Alþingis. Fréttablaðið/Daníel
Umdeild þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka er komin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd Alþingis. Fréttablaðið/Daníel
 Þingmenn túlka ræðu Bjarna Benedikssonar, efnahags og fjármálaráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðslu á tvennan hátt.

Annars vegar að Bjarni hafi verið að rétta fram sáttahönd, hins vegar að hann og ríkisstjórnin sé á flótta undan tillögu Gunnars Braga Sveinssonar um að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka. Ræðuna flutti Bjarni á Alþingi í fyrrakvöld. Þar sagði hann að það kæmi til álita að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það er enginn sérstakur ásetningur ríkisstjórnarinnar að halda málinu frá þjóðinni,“ sagði Bjarni. Hann sagði að það væri hins vegar ekki sama hver spurningin væri ef málið væri borið undir þjóðina.

„Ég vil gera mjög skýran greinarmun á tvennu, annars vegar því að bera það mál undir þjóðina sem hér er til umræðu í þinginu, að draga aðildarumsóknina til baka, og hins vegar því að spyrja þjóðina hvort nú sé ekki góður tími til að ljúka aðildarviðræðunum. Þetta eru tveir ólíkir hlutir,“ sagði Bjarni sem telur að spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslu eigi að snúast um hvort þjóðin sé sammála ríkisstjórninni um að draga umsóknina til baka.

Hann sagðist alltaf hafa viljað að þjóðin kæmi að málinu, en á grundvelli þess sem ákveðið væri á Alþingi.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna telur að Bjarni hefði verið að lýsa því yfir að hann væri reiðubúinn að skoða ýmsar leiðir í þessu máli, þar á meðal tillögu VG um að gera hlé á viðræðunum og taka þær ekki upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég lít svo á að sú krafa sem er uppi um þjóðaratkvæðagreiðslu sé lýðræðiskrafa. Krafan snýst ekki um að Ísland gangi í ESB. Ég túlka orð Bjarna á þann hátt að aðkoma þjóðarinnar að þessu máli sé tryggð,“ segir Katrín.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar segir að það verði lögð áhersla á það í vinnu utanríkismálanefndar að sætta málið.

„Ég ætla að leyfa mér að túlka ræðuna á þann hátt að Bjarni hafi verið að rétta fram sáttahönd. Það er vel hægt að ná lýðræðislegri lendingu í málinu,“ segir Guðmundur.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar horfir allt öðrum augum á ræðuna.

„Ræðan gróf enn frekar undan tillöguflutningi ríkisstjórnarinnar. Það talar enginn fyrir þessari tillögu Gunnars Braga eins og hún er lögð fram.

Allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru þöglir í umræðunni. Það blasir við að tillagan er munaðarlaus það vill enginn bera ábyrgð á henni. Tillagan ber í sér svo mikil brigsl á gefnum loforðum að hún ber dauðann í sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×