Innlent

Ótækt að dómstóll sé á reit hjá lögreglunni

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Borgarráð hefur skipað viðræðuteymi um flutning starfsemi dómhússins.
Vísir/Valli
Borgarráð hefur skipað viðræðuteymi um flutning starfsemi dómhússins. Vísir/Valli
Hvorki Dómarafélag Íslands né Dómstólaráð hafa fengið að vera með í ráðum eða fengið afrit af bréfaskriftum borgarstjóra og innanríkisráðherra um mögulegan flutning Héraðsdóms Reykjavíkur af Lækjartorgi að sögn Skúla Magnússonar, formanns dómarafélagsins.

Vitnað var á Vísi í fyrradag í skrif Dags B. Eggertssonar á Facebook þar sem hann sagði að innanríkisráðherra hefði tekið vel í óskina um viðræður um að flytja Héraðsdóm af Lækjartorgi. „Borgarráð skipaði viðræðuteymi í morgun,“ skrifaði Dagur.

Í viðtali við Vísi sagði hann að lögreglustöðvarreiturinn við Hlemm væri tilvalin staðsetning. Þar væri stórt plan þar sem hægt væri að koma upp byggingum.

Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs sem fjallaði meðal annars um málið á fundi sínum í gær, segir það algerlega ótækt að flytja starfsemi dómhússins á lögreglureitinn.

„Árið 1992 varð frægur aðskilnaður. Þá var dómsvald og framkvæmdavald aðskilið. Dómsvaldið var tekið af sýslumönnum til að það yrði sýnilega sjálfstætt. Dómsvaldið á að vera óháð og ótengt framkvæmdarvaldinu og þess vegna gengur aldrei að setja lögreglu og dómstóla aftur á sama stað,“ segir Símon.

Hann bætir við að Dómstólaráð mótmæli harðlega þeim vinnubrögðum að ekkert samráð skuli hafa verið haft við það og Héraðsdóm Reykjavíkur um undirbúning að flutningnum.

Skúli Magnússon
Ráðið segir að finna verði starfseminni stað í hjarta höfuðborgarinnar þar sem nú þegar sé að finna helstu stofnanir ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Skúli Magnússon segir að svo virðist sem flytja eigi Héraðsdóm hreppaflutningum. „Þetta virðist alfarið vera mál borgarinnar og innanríkisráðherra hvar stærsti dómstóll landsins eigi að vera. Það er ekki metnaður fyrir því að héraðsdómur fái stað sem ber vitni um virðingu og reisn dómkerfisins þegar rætt er um hann verði á bak við lögreglustöðina,“ segir Skúli.

Formaður borgarráðs hefur lýst því yfir að dómhúsið smiti engri gleði á Lækjartorg. Möguleiki væri að koma þar fyrir verslunum og veitingahúsi.

„Þetta er partur af því sem ég myndi kalla kaffihúsavæðingu miðbæjarins. Það er tímabært að menn fari að spyrja sig að því um hvað miðborg eigi að snúast,“ segir formaður dómarafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×