Innlent

Nauðsynlegt að taka á húsnæðisvandanum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Óskar Bergsson, oddviti framsóknarmann í Reykjavík.
Óskar Bergsson, oddviti framsóknarmann í Reykjavík.


„ESB-umræðan er ekki jafn óþægileg fyrir okkur og samstarfsflokkinn. Þetta er umræða sem er í gangi og hún er hávær. En hún á eftir að ganga yfir og ég held að hún muni ekki hafa áhrif á úrslit kosninganna. Ég held að menn verði að horfa á það hvað þessi ríkisstjórn er að gera sem er skuldaleiðrétting, afnám verðtryggingar, hallalaus fjárlög og 2% verðbólga. Mér finnst að það sé verið að skamma núverandi ríkisstjórn fyrir það sem gamla ríkisstjórnin, sem hóf þessar viðræður við ESB, hefði átt að gera. Hún hefði átt að spyrja þjóðina áður en lagt var af stað. Þá stæðum við ekki uppi með þetta vandamál í dag,“ segir Óskar Bergsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavík.

Vantar húsnæði fyrir venjulegt fólk



Óskar segir að húsnæðisvandinn verði meðal stærstu mála í komandi kosningum.

„Ég held að ástandið á húsnæðismarkaðnum sé tilkomið vegna þess að síðastliðin sex ár hefur nánast ekkert verið byggt af húsnæði í Reykjavík nema kannski í Skuggahverfinu sem er ekki fyrir þennan hefðbundna kaupendahóp. Við þurfum að byggja meira af venjulegu húsnæði fyrir venjulegt fólk. Við teljum að það sé best að gera það þar sem við getum lagt fram ódýrustu lóðirnar. Er ég þá að tala um Úlfarsárdalinn sem núverandi meirihluti er búinn að taka út úr aðalskipulagi því hann vill leggja meiri áherslu á byggðina nær miðborginni. Lóðaverð er hins vegar talsvert hærra í miðborginni og það mun hafa áhrif á fasteignaverð. Við teljum að til þess að geta boðið venjulegu fólki upp á venjulegt húsnæði þurfum við að gera það líka í úthverfunum. Við þurfum líka að taka tillit til kröfu þeirra um þéttingu byggðar. Við sjáum það fyrir okkur að það sé ekki í Vatnsmýrinni þar sem flugvöllurinn er. Við viljum að hann verði áfram þar. En það eru þéttingarreitir á Laugaveginum sem eru tilbúnir, á Hafnarsvæðinu og svo á svæðinu frá Hlemmi austur Laugaveginn, Suðurlandsbrautina og að Skeifunni. Við teljum að Skeifan komi vel til greina sem þéttingarsvæði í framtíðinni,“ segir Óskar.



Vill taka á hallarekstri



Óskar telur nauðsynlegt að taka til hendinni þegar kemur að rekstri borgarinnar og segir mögulegt að ná fram hagræðingu án þess að hækka gjöld á borgarbúa.

„Ég mun taka á [hallarekstrinum] með svipuðum hætti og ég gerði í hruninu 2008 til 2010. Þá var ég formaður borgarráðs og við sáum fram á gríðarlega mikla erfiðleika í fjármálum. Ekki bara hjá borginni heldur hjá landsmönnum og hjá ríkinu. Við gerðum þverpólitíska aðgerðaáætlun þar sem allir flokkar komu að og gerðum áætlun út kjörtímabilið. Það var áætlun sem gerði ráð fyrir að engar gjaldskrár yrðu hækkaðar. Útsvarið yrði ekki nýtt í botn og grunnþjónustan yrði varin. Við ákváðum að fara í verklegar framkvæmdir og sem dæmi get ég nefnt Sleggjuna sem er síðasti áfangi Hellisheiðarvirkjunar sem var farið í eftir hrun. Við spöruðum í innkaupum og starfsmenn borgarinnar tóku fullan þátt í þessu með okkur og stóðu sig frábærlega. Svo var ráðningarbann sem þýddi að það var bannað að ráða í störf sem losnuðu nema að fara í gegnum ákveðið starfatorg sem var starfrækt þá. Þegar við skoðuðum útkomuna úr þessu eftir eitt og hálft ár þá hafði fækkað um þúsund starfsmenn hjá borginni. Við erum að tala um kostnaðarlið sem er 3 til 6 milljarðar á ári bara í fækkun starfa. Ég er ekki að segja að við myndum gera það nákvæmlega svona en í þessa veru myndi ég fara inn í hagræðingu hjá borginni,“ segir Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×