Innlent

Rökstyðji að skilmálar virkjunarleyfa séu ekki brotnir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Meira vatnsmagn í Lagarfljóti en gert var ráð fyrir áður en virkjað var við Kárahnúka hefur að viti heimamanna valdið auknum landspjöllum.
Meira vatnsmagn í Lagarfljóti en gert var ráð fyrir áður en virkjað var við Kárahnúka hefur að viti heimamanna valdið auknum landspjöllum. Mynd/Úr einkasafni.
„Við fáum ekki séð að það hafi verið farið ofan í þær athugasemdir sem við gerðum,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, um þá ósk að Orkustofnun endurskoði álit sitt á því hvort Kárahnúkavirkjun og Lagarfossvirkjun uppfylli skilmála virkjunarleyfa.

Fljótsdalshérað sendi Orkustofnun bréf um málið í apríl og september í fyrra. Þar var rætt um landbrot og önnur neikvæð umhverfisáhrif vegna þess að vatnshæð í Lagarfljóti eftir að Kárahnúkavirkjun var smíðuð varð um 30 prósent meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bætur vegna landspjalla til landeiganda við fljótið hafi tekið mið af ákveðinni vatnshæð.

„Fljótdalshérað telur vafa undirorpið að skilyrðum virkjunarleyfa hafi verið fylgt,“ segir í bréfi sveitarfélagsins til Orkustofnunar. „Í öllu falli hafi forsendur orkufyrirtækjanna og þar af leiðandi stjórnvalda að baki virkjunarleyfunum ekki staðist.“

„Það er lágmark að menn fari ofan í og svari þeim athugasemdum sem við gerðum,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Forsendur ekki „verulega“ brostnar

Sagt er tilefni er til þess að Orkustofnun skoði hvort endurskoða eigi virkjunarleyfi virkjananna tveggja og samrekstur Landsvirkjunar og Orkusölunnar á þeim.

Orkustofnun segist nú hafa kynnt sér sjónarmið Fljótsdalshéraðs og umsagnir Landsvirkjunar og Orkusölunnar. Ekki sé ástæða „að svo stöddu“ til að endurskoða virkjunarleyfin.

„Það er mat Orkustofnunar að ekki sé unnt að halda því fram að skilmálar nefndar virkjunareyfa, eins og þeir liggja fyrir, hafi verið brotnir né að forsendur virkjunarleyfanna séu verulega brostnar,“ segir stofnunin sem kveður þó „vissulega hafa komið í ljós að aukið vatnsmagn og rennsli árinnar virðist brjóta land á bökkum árinnar.

Áhrif á flutning óssins ósönnuð

Um færslu óss Lagarfljóts um 3,2 kílómetrum norðar en ósinn var oftast á síðustu öld segir Orkustofnun orsök þess hvorki þekkta né sannreynda staðreynd.

Búast má við að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykki í dag nýtt bréf þar sem óskað verður eftir því að Orkustofnunar taki málið upp að nýju.

„Það er lágmark að menn fari ofan í og svari þeim athugasemdum sem við gerðum. Það var ekki gert. Þess vegna viljum við að þeir skoði þetta betur,“ ítrekar Björn bæjarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×