Innlent

Týndi kötturinn ratar í heimspressuna

Bjarki Ármannsson skrifar
Örvar og Birkir Fjalar eftir heimkomu þess fyrrnefnda.
Örvar og Birkir Fjalar eftir heimkomu þess fyrrnefnda. MYnd/Aðsend
Frásögn Vísis af kettinum Örvari, sem kom í leitirnar eftir að hafa verið týndur í sjö ár, hefur vakið athygli bandarísku fréttasíðunnar Newser.com. Þar er greint frá ævintýrum kattarins í dag.

Birkir Fjalar Viðarsson fékk tölvupóst frá Kattholti í febrúar og honum tilkynnt að kötturinn hans, sem fór að heiman haustið 2007, hefði fundist og að Birkir mætti sækja hann. Birkir hafði skiljanlega þegar hafið að syrgja Örvar og voru miklir fagnaðarfundir þegar hann leit gæludýr sitt augum á ný.

„Ég ætla ekki að láta hann frá mér aftur,“ sagði Birkir í samtali við Vísi í vikunni. Birkir sagði þá Örvar hafa verið mjög nána alla tíð þar til hvolpur var keyptur á heimilið.

„Örvar meikaði ekki hvolpinn sem var einhvernveginn úti um allt,“ rifjar Birkir upp. „Hann var farinn að vera nokkra daga í einu úti. Og ég tengdi það við hvolpinn.“

Eitt haustkvöldið fór það þá svo að Örvar kom ekki heim og við tók erfið leit og bið fyrir Birki. Hann segist reglulega hafa haft samband við Kattholt til að athuga hvort Örvar hefði komið í leitirnar, en allt kom fyrir ekkert.

Tölvupósturinn örlagaríki barst svo loks nú í ár og er Birkir gríðarlega þakklátur að hafa fengið Örvar, sem er nú orðinn sextán ára, heim aftur.

„Mér finnst yndislegt að fá að taka þátt í þessum lokakafla í ævi Örvars. Við erum sameinaðir að nýju og ég þakka bara fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×