Innlent

Margir sjálfstæðismenn vilja að staðið sé við fyrirheit um þjóðaratkvæði

Þorgils Jónsson skrifar
Sjálfstæðismenn ályktuðu á landsfundi fyrir ári að draga skyldi umsóknina um aðild að ESB til baka. Fram að kosningum töluðu allir verðandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið á þessu kjörtímabili. Ólga er nú innan flokksins vegna tillögu um að slíta viðræðum án þess að almenningur fái að koma að þeirri ákvörðun.
Sjálfstæðismenn ályktuðu á landsfundi fyrir ári að draga skyldi umsóknina um aðild að ESB til baka. Fram að kosningum töluðu allir verðandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir því að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið á þessu kjörtímabili. Ólga er nú innan flokksins vegna tillögu um að slíta viðræðum án þess að almenningur fái að koma að þeirri ákvörðun. Fréttablaðið/Valli
Skiptar skoðanir eru innan Sjálfstæðisflokksins um ákvörðun stjórnarflokkanna um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Styrinn stendur helst um þá ákvörðun að slíta viðræðunum án þess að þjóðin hafi fengið að segja sína skoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ljóst er að meirihluti flokksmanna er fylgjandi því að slíta viðræðunum og er það í samræmi við ályktun á landsfundi í fyrra þar sem samþykkt var að slíta viðræðunum og ekki taka þær upp á ný fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi ályktun vakti reiði aðildarsinna sem urðu undir á landsfundinum, en í kosningabaráttunni mýktist línan nokkuð. Í kosningabæklingi flokksins sagði meðal annars að „kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram“. Þá hefur einnig komið fram að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, og allir núverandi ráðherrar flokksins töluðu fyrir því í kosningabaráttunni að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin.

Menn standi við loforð

Þrjú efstu á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar á Akureyri lýstu því yfir í samtali við Akureyri vikublað um daginn að þau vildu að málið yrði lagt fyrir þjóðina. Í samtali við Fréttablaðið segist Gunnar Gíslason, oddviti listans, standa við þá yfirlýsingu.

„Ég stend við það sem ég hef sagt að það ætti að senda málið eins og það er statt í dag, í þjóðaratkvæðagreiðslu frekar en að fara þessa leið. Sumir flokksmenn eru gallharðir andstæðingar ESB-aðildar, en málið snýst ekki um það í þessu tilviki. Þetta snýst um að þjóðin fái að taka þessa ákvörðun sjálf.“

Gunnar segir erfitt að segja til um hvort umræða síðustu daga muni skaða flokkinn til lengri tíma litið. „En ég hef þá trú, eins og framsetningin er í fjölmiðlum, að þetta muni að einhverju leyti skaða trúverðugleika flokksins. Það er ekki gott að standa í þessu þrefi og má líkja saman við það sem fyrri ríkisstjórn þurfti að eiga við eftir að hafa ekki staðið við sín orð. Mér finnst einfaldlega að menn eigi heilt yfir að standa við það sem þeir segja og lofa.“

Æfir á Ísafirði

Gunnar Þórðarson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ, tekur enn dýpra í árinni og segir óumdeilanlegt að í kosningabaráttunni hafi verið gefið loforð.

„Ég þekki marga sem þetta loforð skipti máli í kosningunum. Það eru hreinar línur að þessu var lofað og það er ekki hægt að komast fram hjá því þó menn reyni.“

Þá átelur Gunnar flokksforystuna fyrir að hafa ekki haft samráð við almenna flokksmenn áður en þingsályktunartillagan var lögð fram og segir ákveðið áfall að þurfa að takast á við slík mál svo stuttu fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Gunnar segist hafa fengið mikil viðbrögð við yfirlýstri andstöðu sinni.

„En það hefur enginn haft samband við mig sem er óánægður með það sem ég er að segja. Það er ótrúlegur fjöldi sem ég er búinn að tala við hér sem er æfur yfir þessu og það finnst mér vera andinn hér á Ísafirði.“

Staða Bjarna þó sterk

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir marga furða sig á flýtinum á því að slíta viðræðunum, en staða Bjarna Benediktssonar á formannsstóli sé enn sterk.

„Hraðinn í þessu kom mér á óvart. Ég átti ekki von á þessu. Ég átti allt eins von á því að viðræðunum yrði slitið en hafði skilið það þannig að það yrði fyrst gengið til þjóðaratkvæðis um það. Flestir sjálfstæðismenn sem ég hef talað við eru á móti því að ganga í Evrópusambandið, en mjög margir eru tilbúnir til að sjá aðildarviðræðurnar kláraðar og mjög margir eru líka á því að þjóðin eigi að fá að kjósa um málið.“

Spurður hvort staða Bjarna sem formanns hafi veikst í þessari umræðu telur Halldór svo ekki vera.

„Formaðurinn minn er í ólgusjó, en ég styð þó við bakið á honum. Ég held að Bjarni hafi verið að styrkja sig sem formaður, en Sjálfstæðisflokkurinn er opinn og lýðræðislegur flokkur, þannig að ef við erum ekki sammála um eitthvað þá vinnum við úr því.“

Halldór segist ekki óttast að umræðan um Evrópumál muni koma til með að skaða flokkinn í borgarstjórnarkosningunum. „Við erum ekkert að fjalla um ESB þar, en ég vona bara að þetta skyggi ekki á okkar málflutning og stefnumál.“

Ekki bannað að skipta um skoðun

Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir vissulega vera skiptar skoðanir um málið innan flokksins, en hann sé sjálfur hlynntur þeirri leið sem farin var.

„Ég studdi ályktunina á landsfundi flokksins um að draga umsóknina til baka og sé ekki tilganginn í að geyma málið á ís.“

Hann segir að atkvæðagreiðslan hefði með réttu átt fara fram þegar viðræðurnar hófust, en ekki þegar á að slíta þeim.

Óttarr telur ekki að flokkurinn muni skaðast vegna umræðunnar um málið. „Nei, ég trúi því að menn séu að gera þetta af heilum hug með hagsmuni landsins að sjónarmiði og svo er ekki bannað að skipta um skoðun.“

Hann telur að bakland flokksins standi á bak við þessa ákvörðun þingflokksins.

Ummæli núverandi ráðherra í aðdraganda kosninga

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

Janúar 2013: Íslendingur - Vefrit fullrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

"Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Sökum þeirra miklu deilna sem aðildarviðræðurnar hafa skapað í þjóðfélaginu tel ég rétt að þjóðin fái tafarlaust að kjósa um áframhald aðlögunarviðræðna."

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra

Október 2012: Bein lína á DV

"Ég er ekki hlynnt aðild Íslands að ESB og vil að almenningur verði spurður að því hvort halda eigi ferlinu áfram."

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Apríl 2013: Kosningasjónvarp RÚV

"Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til þess að taka upplýsta ákvörðun. [...] eina leiðin til að komast að niðurstöðu um það hvert skuli halda núna, er að spyrja þjóðina.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra

Mars 2013: Silfur Egils

"Ég er sammála því að það verði stöðvaðar þessar viðræður [...] og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin fái að segja sinn hug í því hvort hún vilji klára þetta eða ekki. Ef það er þannig að þjóðin segi já við því þá eru allir menn og allir flokkar bundnir af þeirri niðurstöðu."

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra

Febrúar 2013: Landsfundur

"Ég túlka þessa ályktun ekki þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé skuldbundinn til að setja þjóðaratkvæðagreiðslu á dagskrá."

Mars 2013: Stöð 2

"Í Evrópusambandsmálinu þá munum við standa við það sem að við höfum ályktað um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún gæti farið fram á fyrri hluta þessa kjörtímabils, til dæmis í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar. En við munum standa við það að hlusta eftir því sem fólki í landinu vill."

Apríl 2013: Fréttablaðið

"Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn, en við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.