Innlent

Tilboð ESB í makríldeilunni gildir út vikuna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Maria Damanaki segir tilboðið standa út vikuna.
Maria Damanaki segir tilboðið standa út vikuna. Nordicphotos/AFP
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hefur sett Færeyingum og Íslendingum úrslitakost í makríldeilunni.

Hún býður þessum tveimur ríkjum hvoru um sig tólf prósent af 890 þúsund tonna makrílkvóta, en Norðmenn eiga að fá 21 prósent, Evrópusambandið 47 prósent en Rússland afganginn.

Þetta kemur fram á vefsíðu þýska tímaritsins Der Spiegel, þar sem Damanaki segir þetta rausnarlegt boð: „Við höfum gert báðum ríkjunum rausnarlegt tilboð. Þetta er gullið tækifæri,“ segir hún í viðtali við Der Spiegel. „Nú er annaðhvort að taka þessu eða hafna því.“

Þetta tilboð á að standa út vikuna: „Ef við komumst ekki að neinu samkomulagi núna þá munum við aðeins ræða við Norðmenn áfram,“ segir hún.

Hún segir útilokað að stækka kvótann enn frekar, umfram þau 890 þúsund tonn sem nú er áformað að leyfa veiðar á: „Við getum ekki farið út fyrir ráðleggingar vísindamanna, bara til þess að gera öllum til hæfis,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×