Innlent

Elti fórnarlambið upp á bráðamóttöku

Brjánn Jónasson skrifar
Átök sem enduðu með hnífstungu urðu á skemmtistaðnum Monte Carlo um kvöldmatarleyti á laugardag.
Átök sem enduðu með hnífstungu urðu á skemmtistaðnum Monte Carlo um kvöldmatarleyti á laugardag. Mynd/Daníel
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem grunaður er um stórfellda líkamsárás á skemmtistaðnum Monte Carlo á laugardaginn. Maðurinn elti fórnarlambið á bráðamóttöku Landspítalans.

Meintur gerandi átti í útistöðum við annan gest Monte Carlo. Sá hafði sakað gerandann um að hafa stolið bíl. Vitni segja að slagsmál þeirra hafi endað með því að fórnarlambið var stungið með hnífi í síðuna.

Maðurinn hlaut lífshættulega áverka í árásinni. Hnífslagið náði að milta hans og blæddi inn á kviðarhólf hans vegna stungunnar.

Meintur gerandi kom á bráðamóttöku Landspítalans eftir að fórnarlamb hans var flutt þangað. Samkvæmt því sem rakið er í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms mun gerandinn hafa rætt við þrjá menn sem virðast tengjast fórnarlambinu. Þeim orðaskiptum mun hafa lokið á því að meintur gerandi lét einn þeirra hafa hníf og manaði hann að stinga sig. Þegar ekki varð af því fór maðurinn, en var handtekinn af lögreglu skömmu síðar. Hnífurinn fannst í ruslafötu við bráðamóttökuna.

Lögregla krafðist gæsluvarðhalds til 10. janúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna, og urðu dómstólar við því. Lögreglan telur líkur á að meintur gerandi geti haft áhrif á vitni og spillt rannsókninni með öðrum hætti gangi hann laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×