Innlent

Fór í verkfræði en dreymir um flugið

Freyr Bjarnason skrifar
Hjálmar Grétarsson er einn þeirra flugmanna sem hafa ekki fengið vinnu við sitt hæfi undanfarin ár.
Hjálmar Grétarsson er einn þeirra flugmanna sem hafa ekki fengið vinnu við sitt hæfi undanfarin ár. Fréttablaðið/Daníel
Hjálmar Grétarsson er einn þeirra mörgu menntuðu flugmanna hér á landi sem hafa ekki fengið vinnu við sitt fag.

Hann ákvað að skrá sig í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BS-próf árið 2012.

Hugsanlega mun hagur hans vænkast eftir nokkur ár ef flugmannaskortur verður í heiminum eins og spár flugiðnaðarins gera ráð fyrir. „Í hvert sinn sem þeir auglýsa hendir maður inn umsókn. Þetta er svolítið eins og lottó. Það eru gríðarlega margir sem sækja um í hvert einasta sinn og margir um hverja stöðu,“ segir Hjálmar aðspurður en hann hefur tvívegis sótt um hjá Icelandair.

Hann var einn þeirra 197 umsækjenda sem komust ekki í gegnum síuna þegar Icelandair réð þrjátíu nýja flugmenn fyrir skömmu. „Maður þarf að halda í vonina en vissulega er það leiðinlegt að fá ekki starf við sitt hæfi.“

Hjálmar, sem er 26 ára, hlaut atvinnuflugmannsréttindi árið 2009. Flugmenn sem eru ráðnir til Icelandair þurfa einnig að hafa lokið fimm hundruð flugtímum og kaus hann því að fara tvisvar til Bandaríkjanna þar sem hann kláraði þrjú hundruð tíma. Afganginn lauk hann við hér heima.

„Ég reyndi fyrst mikið og var að tala við stór sem smá fyrirtæki, meðal annars í útlöndum,“ segir hann spurður út í atvinnuhorfur að námi loknu. „En fljótlega eftir að fyrsta árið var búið fór maður að hugsa sinn gang. Mig langaði að hafa varaplan og þess vegna fór ég í verkfræðina.“

Hjálmar starfar nú hjá verkfræðideild ITS í viðhaldsskýli á Keflavíkurflugvelli. Þar sinnir hann viðhaldskerfi, meðal annars fyrir flugvélar Air-Niugini frá Papúa Nýju-Gíneu, og líkar það vel. Hann heldur samt enn í flugmannsdrauminn og vonast til að hann verði að veruleika fyrr en síðar.

Aðspurður segir Hjálmar mjög algengt að starfandi flugmenn fari í háskóla eins og hann hefur gert og sæki sér gráðu. „Þeir sem eru ráðnir inn til að byrja með fá sumarráðningu fyrstu árin og þurfa því að gera eitthvað á veturna. Ég veit um verkfræðinga sem fljúga á sumrin og vinna á verkfræðistofum eða annars staðar á veturna. Þetta er smá þrautaganga,“ segir hann en telur að hún sé vel þess virði fyrir þá sem ala með sér þann draum að verða flugmenn í fullu starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×