Innlent

Sækir innblástur í náttúruna og lifir lúxuslífi í Los Angeles

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
Sófinn sem Guðlaug situr í er hluti af hönnun hennar á heilsulindinni á Hótel Þingholti og eru púðarnir og veggurinn úr selskinni.
Sófinn sem Guðlaug situr í er hluti af hönnun hennar á heilsulindinni á Hótel Þingholti og eru púðarnir og veggurinn úr selskinni. Fréttablaðið/Vilhelm
Guðlaug Jónsdóttir arkitekt býr í Los Angeles og hætti að telja árin sem hún hefur dvalið þar eftir að þau náðu öðrum tug. Aðspurð segist hún brosandi vera búsett í LA en hún líti einnig á flugvélar sem sitt annað heimili því að atvinnu sinnar vegna ferðast Gulla mjög mikið.

Ég mælti mér mót við Gullu á Hótel Þingholti en hótelið hannaði Gulla sjálf fyrir um sjö árum. Hún er komin hingað til lands til að kynna stækkun á hótelinu en hún bætti nýlega við veitingastað, heilsulind, líkamsrækt og fundarsal. Gulla hefur einnig verið að hanna nýtt Baðhús fyrir Lindu Pétursdóttur, en það verður opnað á Smáralind á næstu dögum. Veitingastaðurinn Gló og Rope Yoga setrið eru einnig á meðal hönnunar Gullu á Íslandi.

Þegar Gulla mætir í viðtalið er hún klædd glæsilegum fatnaði frá JÖR sem hún valdi í samráði við stílistann sinn, Eddu Guðmundsdóttur. Hún heilsar öllum gestum og starfsfólki með mikilli hlýju og vinsemd og augljóst að hún er í miklu uppáhaldi á meðal þeirra sem á hótelinu dvelja. Við byrjuðum viðtalið á útsýnisferð um fundarsalinn, líkamsræktina, og heilsulindina sem hefur að geyma gufubað og svarta laug en allt verður þetta opnað gestum á næstunni. Gullu hefur tekist að skapa mjög róandi andrúmsloft í glæsilegri aðstöðu í samstarfi við íslensku arkitektastofuna Batteríið. Við tylltum okkur á veitingastaðnum Ísafold og spjölluðum um bransann og lífið.

Hvað kom til að þú ákvaðst að setjast að í LA? „Ég útskrifaðist úr arkitektaskólanum Sci-Arc í Los Angeles árið 1994 og hef verið búsett þar síðan. Það var ekki alltaf planið að flytja út til frambúðar, en þetta hefur æxlast svona og tíminn hefur flogið.

Hannar einbýlishús fyrir Dr. Dre

Ég er búin að stofna mína eigin arkitektastofu þar úti og ég er að hanna byggingar, hótel, veitingastaði, heilsulindir, húsgögn og núna er ég líka að hanna einbýlishús. Ég er að hanna stórt hús fyrir rapparann Dr. Dre og konuna hans.“

Það er ekkert smáræði! Hafði Dr. Dre samband við þig að fyrra bragði? „Það var reyndar svolítið fyndið. Hann hafði beðið ritarann sinn að finna fyrir sig arkitekt og hún fann einhverjar fimmtán vefsíður. Svo var það hann sem valdi mig. Þegar ég fór í viðtalið vissi ég ekkert hver þetta var og var bara mjög afslöppuð, ég gleymdi meira að segja ferilmöppunni minni úti í bíl.“ Gulla skellir upp úr. „Ég fór inn, spjallaði við hjónin og var ráðin á staðnum.“

Hvar ertu alin upp? „Ég er alin upp í Gerðunum í Reykjavík, nánar tiltekið í Heiðargerði. Ég ólst upp með mömmu, ömmu og afa mínum en afi minn var myndlistarmaður. Sem barn fylgdist ég mikið með afa að störfum og varð svo heilluð af vinnu hans að ég byrjaði sjálf að teikna í kjölfarið. Ég fór snemma að líta í kringum mig í hverfinu og komst að þeirri niðurstöðu að margar byggingarnar í hverfinu mættu vel við því að vera talsvert fallegri,“ segir Gulla kímin.

„Ég ferðaðist mikið með móður minni til Ítalíu en hún vann í ferðaþjónustu á sumrin. Ég varð heilluð af Flórens og byggingunum þar. Ég ætlaði samt ekki alltaf að verða arkitekt. Ég er stúdent af náttúrufræðibraut í MR og hafði fyrst hugmyndir um að verða læknir eða lögfræðingur, en ég fékk innsýn í heim arkitektúrsins þegar ég vann eitt sumar hjá Húsameistara ríkisins og þá varð ekki aftur snúið. Á þessum tíma var ekki hægt að læra arkitektúr á Íslandi, núna er ég náttúrulega að koma upp um það hvað ég er gömul.“ Hún hlær. „Á þessum tíma hafði ég aldrei komið til Ameríku en ég vissi að þar væri hlýtt og mikið af pálmatrjám svo ég sótti um skólann og komst strax inn.“

Flutti óvart til Mexíkó

Er eitthvað sem stendur uppúr á ferlinum? „Ég get nefnt til dæmis þegar ég planaði tveggja daga ferð til Mexíkó að hanna veitingastað en kom ekki heim aftur fyrr en einu og hálfu ári síðar eftir að hafa hannað þrjú hundruð herbergja hótel með sundlaugar og heilsulindir og ég veit ekki hvað. Ég hafði aldrei komið til Mexíkó áður en það voru mögnuð kynni, ég heillaðist strax af landi og þjóð. Vinir mínir heima í LA skildu ekkert hvað hafði orðið af mér, það var sem ég hefði gufað upp! Þegar ég svo kom til baka einu og hálfu ári síðar útskýrði ég að ég hefði nú bara aðeins skroppið til Mexíkó,“ segir hún og glottir.

Nú hefur þú skapað þér nafn úti í heimi og ert orðin þekkt á Íslandi líka, hefurðu eitthvað lent í Gróu á Leiti? „Nei, ég hef ekki lent í slíku enn, en ég get sagt þér að ég er að fara að hanna kvikmyndaverðlaunin Critics Choice Movie Awards svo ég get komið með slúður til baka þaðan.“ Hún hlær. „Sú verðlaunaafhending er í LA og hún er mjög vinsæl. Ég kem til með að hanna rýmið þar í ár. Þetta er næsti bær við Óskarinn og mig hefur alltaf langað til að hanna þá hátíð svo þetta er kannski fyrsta skrefið.“

Hvernig eru fjölskylduhagirnir „Ég er einhleyp og barnlaus en það má segja að arkitektúrinn sé minn maki eins og er. Svo geri ég stundum grín að því að hver bygging sem ég hanna tekur um níu mánuði í byggingu, svo það má segja að það sé mín meðganga. Ég á samt mjög mikið af góðum vinum og félagslífið er blómlegt, en enginn maki enn, hann lætur eitthvað á sér standa.“

Gott að slappa af í flugvélum

Hvernig sérðu fyrir þér árið sem er að renna upp? „Það stefnir í mjög ævintýralegt ár. Ég fer héðan frá Íslandi sjöunda, kem við í Mexíkó að líta á hótelverkefni á svipuðum slóðum og ég bjó áður. Þaðan er stefnan tekin til LA að hanna kvikmyndaverðlaunin. Ég er líka á leið til Kína, Japans, Bahama og Beirút og svo stefnir í tíð ferðalög á milli LA og New York. Ég er oft spurð hvort mér finnist ekki leiðinlegt að vera alltaf í flugvél en ég svara því neitandi, þetta er eina afsökunin mín fyrir að vera með slökkt á símanum og að fá frið frá áreiti og vinnu. Ég tek því venjulega rólega í vélinni, skissa, horfi á sjónvarpið og nýt þess að vera til.“

Hvernig myndirðu lýsa þínum hönnunarstíl? „Stíllinn minn er nútímalegur með lífrænar skírskotanir. Byggingarnar eru skúlptúrlegar með listrænum formum, innblásnar af náttúrunni eða mannslíkamanum. Ég er mjög heilluð af fallegum línum, þeim sem einkenna kvenmannslíkamann til dæmis. Það má sjá svona línur í minni hönnun, jafnvel veggina í húsunum hef ég bogadregna. Ég er reyndar svo mikið fyrir rómantískar línur að sumir kúnnar bjóðast til að gefa mér reglustiku í jólagjöf.“ Gulla hlær. „Ég svara því nú að það eru engar beinar línur í mannslíkamanum svo hvers vegna þurfa þær að vera í rýminu? Annars er líka gott að sækja innblásturinn bara innávið. Þegar ég er á skrifstofunni með fólk í vinnu og við stöndum frammi fyrir vandamálum sem krefjast lausnar, þá finnst mér best að stara á vandann, slökkva á heilanum og fylgja hjartanu.“

Ekki á heimleið

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina, áttu von á að vera áfram úti? „Mér finnst samt alltaf jafnyndislegt að koma heim og hitta vini og fjölskyldu og hafa það náðugt. Síðan ég kom heim núna um jólin hef ég átt frábærar stundir með fjölskyldu og vinum og ég hef hagað mér eins og algjör túristi. Ég fór meðal annars að Gullfossi og Geysi og kom við í Bláa lóninu. Þetta eru alveg fastir liðir þegar ég kem hingað til lands. Ég seldi hins vegar nýverið húsið mitt í Heiðargerðinu því ég áttaði mig á því loksins að ég er ekki að fara að búa hér. Ekki á næstunni allavega,“ segir Gulla og brosir leyndardómsfull.

Það er komið að ljósmyndaranum að taka myndir af Gullu en áður en hún fylgir honum í útsýnisferð um rýmið kveð ég þessa mögnuðu konu og hlakka til að fylgjast með störfum hennar í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×