Innlent

Gleði og eftirvænting í hverju andliti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
myndir/KFUM
Sjálfboðaliðar á vegum verkefnisins Jól í skókassa sem félagið KFUM stendur fyrir hafa nú afhent þær gjafir sem verkefninu barst fyrir jólin.

Gjafirnar fara til barna í borginni Kirovograd í Úkraínu en þar ríkir mikil fátækt.

„Við fórum á tvö munaðarleysingjaheimili, tvö sjúkrahús, geðsjúkrahús og á lítinn leikskóla. Svo fórum við líka inn á heimili hjá nokkrum börnum og á bókasafn þar sem félagasamtök hafa komið upp aðstöðu fyrir mikið veik börn,“ segir Mjöll Þórarinsdóttir, einn sjálfboðaliða KFUM sem fór út til þess að afhenda gjafirnar í ár.

SJálfboðaliðarnir lögðu af stað frá Íslandi 30. desember og voru komin til baka 5. janúar.

Mjöll afhendir lítilli stúlku gjöf.
Hún segir að mjög gaman hafi verið að fylgjast með því þegar börnin fengu gjafirnar. Eftirvæntingin hafi verið mikil. Börnin hafi beðið spennt eftir að röðin kæmi að þeim til að fá afhenda gjöf. Þau þurftu svo að bíða þar til allir höfðu fengið sinn pakka til að mega opna. „Þá varð eins og sprenging, það var svo gaman þegar þau opnuðu gjafirnar. Það var ofboðslega gaman að sjá andlitin á þeim, hvernig alvarlegi svipurinn hvarf og gleðibros kom í staðinn,“ segir hún.

Verkefnið Jól í skókassa hefur verið í gangi fyrir hver jól síðan árið 2004. Eins og fram kom á Vísi fyrir jól eru pakkarnir sendir til þessa fátæka svæðis í Úkraínu. Á hverju ári fara Íslendingar út til þess að afhenda gjafirnar. Allt starf í kringum verkefnið er sjálfboðastarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×