Innlent

Engin lög verið brotin enn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Heiða
Lögreglunni í Hafnarfirði var tilkynnt um að íslensk stúlka hefði verið numin á brott af föður sínum í morgun fyrir utan grunnskóla sinn í morgun. Stúlkan var á leið til skóla með móður sinni. Að sögn lögreglu hafa engin lög verið brotin enn sem komið enda foreldrarnir enn giftir. Málinu var af þeim sökum vísað til barnaverndaryfirvalda.

Faðir stúlkunnar, sem er af erlendu bergi brotinn, hitti á mæðgurnar fyrir utan Álftanesskóla í morgun. Hafði hann stúlkuna á brott með sér í óþökk móðurinnar eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag.

Fjölskylda stúlkunnar er í uppnámi og hefur verið í sambandi við lögregluna í Hafnarfirði. Lögreglan vísaði hins vegar málinu til barnaverndaryfirvalda undir þeim formerkjum að engin lög hefðu verið brotin. Móðirin og faðirinn eru enn gift og stúlkan því einnig undir forræði föður síns.

Faðririnn og móðirin hafa búið á Íslandi og í heimalandi föðursins á víxl undanfarin áratug. Nýlega flutti móðirin ásamt stúlkunni til Íslands. Þau eiga einnig dreng sem er á átjánda ári. Mæðgurnar hafa verið búsettar hjá ömmu stúlkunnar undanfarinn mánuð.

Engin úr fjölskyldu stúlkunnar hefur viljað tjá sig um málið opinberlega enn sem komið er. Vegabréf stúlkunnar er hjá móður hennar sem gerir föðurnum erfitt fyrir að koma stúlkunni úr landi. Engu að síður hefur myndum af stúlkunni verið dreift á meðal starfsmanna vegabréfaeftirlitsins á Keflavíkurflugvelli.

Uppfært klukkan 22:30

Faðirinn hefur skilað stúlkunni aftur til móðurinnar sjálfviljugur samkvæmt heimildum DV. Mæðgurnar halda til á öruggum stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×