Innlent

Uppsagnir leikaranna ekki dregnar til baka

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Uppsagnir leikaranna Hönnu Maríu Karlsdóttur og Theodórs Júlíussonar verða ekki dregnar til baka, en gerður hefur verið tímabundinn ráðningasamningur við þau.

Hanna María er Theodór eru einir reyndustu leikarar Borgarleikhússins og eiga að baki áratuga langan starfsferil.

Uppsagnir þeirra hafa fallið í grýttan farveg meðal leikara og hefur stjórn Félags íslenskra leikara (FÍL) nú sent frá sér yfirlýsingu.

Hægt er að sjá yfirlýsinguna hér að neðan:

Þriðjudaginn, 1. apríl 2014 bárust stjórn FÍL fregnir af því að tveimur af reyndustu leikurum Borgarleikhússins, þeim Hönnu Maríu Karlsdóttur og Theodóri Júlíussyni, hefði verið sagt upp störfum eftir margra áratuga starf í þágu Leikfélags Reykjavíkur.   

Eru uppsagnir ávallt sársaukafullar og því afar mikilvægt að þær séu vel ígrundaðar og að vel sé að þeim staðið.   Stjórn FÍL furðaði sig á þessari ákvörðun stjórnenda Borgarleikhússins í ljósi starfsreynslu leikaranna og framlags þeirra til leikhússins en ekki síður í ljósi þess að þau eiga skammt eftir til eftirlaunaaldurs. Hafa báðir leikararnir verið mjög virkir á undanförnum árum, móttekið fjölda viðurkenninga og verðlauna vegna þeirra framlags í þágu leiklistar, bæði á leiksviði sem og í kvikmyndum.  

Í kjölfarið sendi stjórn Félags íslenskra leikara, sem og fjölmennur félagsfundur FÍL, út yfirlýsingu til  stjórnenda og stjórnar Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, þar sem umræddum uppsögnum var mótmælt og þess krafist að þær yrðu dregnar til baka.  

Stjórnendur Borgarleikhússins hafa nú endurskoðað sína ákvörðun. Uppsagnirnar voru ekki dregnar til baka en gerður tímabundinn ráðningarsamningur við umrædda leikara.

Það er einlæg von að af þessu máli megi draga einhvern lærdóm og að okkar elsta og reyndasta fólk í faginu verði metið að verðleikum og fái að eldast í starfi með virðingu og reisn.  


Tengdar fréttir

Hanna og Theodór komin með tilboð í hendurnar

Leikhússtjóri hefur endurskoðað uppsagnir leikaranna Hönnu Maríu Karlsdóttur og Theodórs Júlíussonar. Fundað verður um málið með fulltrúum stéttarfélags í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×