Lífið

Auglýsingastefið sem allir eru að tala um

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hólmfríður Ólafsdóttir, betur þekkt sem Hófí syngur lagið It Has To Be You, sem Pétur Jónsson samdi upphaflega fyrir auglýsingu. Lagið hefur fengið mikla athygli.
Hólmfríður Ólafsdóttir, betur þekkt sem Hófí syngur lagið It Has To Be You, sem Pétur Jónsson samdi upphaflega fyrir auglýsingu. Lagið hefur fengið mikla athygli. vísir/daníel
„Ég hef fengið rosalega góð viðbrögð við laginu, og í raun vonum framar,“ segir hin 22 ára gamla söngkona, Hólmfríður Ólafsdóttir, betur þekkt sem Hófí, en hún var fengin til þess að syngja lagstúf sem notaður var í Egils Kristal auglýsingu, en sökum mikillar eftirspurnar var lagstúfurinn gerður að fullgerðu lagi sem komið er nú í spilun.

Lagið ber titilinn It Has To Be You og samdi Pétur Jónsson lag og texta. „Pétur hafði samband við mig í janúar og fékk mig til þess að syngja þennan lagstúf fyrir auglýsinguna, þetta var í raun bara stef. Þegar stefið var komið í loftið, varð mikil eftirspurn eftir laginu og var því ákveðið að gera fullgert lag úr stefinu,“ útskýrir Hófí.

„Ég bjó til 45 sekúndna langt lag eins og venjan er fyrir auglýsingar en svo var fólk farið að senda pósta um hvar hægt væri að finna lagið og þá var ákveðið að klára lagið. Þetta er í raun eins og að þú sért búinn að baka eina köku en svo koma 20 manns í viðbót, þá þarf að baka meira og kakan þarf að vera jafn góð,“ segir tónlistarframleiðandinn Pétur Jónsson um lagið.

Pétur JónssonMynd/Guðni Einarsson
Hófí segir þau upphaflega hafa kynnst þegar hún söng bakraddir fyrir hljómsveitina Feldberg en þá lék Pétur á bassa. „Pétur er frábær náungi og það er mjög gott að vinna með honum,“ bætir Hófí við.

Hún stundar nám í djasssöng við tónlistarskóla FÍH og hefur í hyggju að starfa við tónlist í framtíðinni. „Ég er nú ekki í hljómsveit eins og er en mig langar gjarnan að semja meiri músík sjálf og stefni að því.“

Fyrir utan tónlistina starfar Hófí á leikskóla. „Ég stýri oft söngstundunum í leikskólanum og það er ansi gaman,“ segir Hófi og hlær.

Frekara samstarf Hófíar og Péturs er ekki staðfest að svo stöddu en Hófí ætlar sér þó stóra hluti í framtíðinni.

Pétur Jónsson er vel kunnur tónlistarbransanum og hefur samið og pródúserað ýmsa tónlist sem fólk hefur heyrt víðs vegar.

Þekkt tónlist sem Pétur hefur unnið að er til dæmis lagið Betri en þú, sem notað var í Lambakjötsauglýsingunum á síðasta ári en Sigríður Thorlacius og Bogomil Font sungu lagið.

Lagið Big sem notað var í Vodafone-auglýsingum árið 2009.

Þá hefur hann einnig unnið að gerð fjölda kvikmyndastikla og nú síðast fyrir Vonarstræti.

Hér má sjá fleiri verk Péturs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.