Innlent

Góður samningur fyrir Þingeyri og Flateyri

Haraldur Guðmundsson skrifar
„Við fögnum þessari niðurstöðu og þessari samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtæki eru að sýna þarna þrátt fyrir að þetta séu keppinautar í viðskiptum með fiskinn,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Fyrirtækin Arctic Oddi ehf., Valþjófur ehf. og Vísir hf. komust á fimmtudag að samkomulagi sem á að styrkja stoðir atvinnulífsins á Flateyri og Þingeyri. Samkomulagið felur í sér að Arctic Oddi mun flytja fiskvinnslu sína frá Flateyri í húsnæði á Þingeyri sem var áður í eigu Vísis. Við það skapast 15 störf við vinnslu og pökkun á eldisfiski og frekari uppbyggingu á fiskeldi fyrirtækisins.

Fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur tekur við fasteignum og tækjum Arctic Odda á Flateyri og gerir ráð fyrir að skapa um 20 ársstörf. Aðkomu Vísis að útgerð og vinnslu á Þingeyri lýkur með samkomulaginu en það er gert með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar.

Finnbogi SveinbjörnssonMynd/aðsend
„Vissulega verða þetta færri störf til að byrja með en þetta er auðvitað töluvert meiri vinnsla en stefndi í því við vorum farin að gera ráð fyrir að fiskvinnsla myndi nánast leggjast af á báðum stöðum,“ segir Finnbogi og heldur áfram.

„Þetta byggir að stóru leyti á því að Byggðastofnun sýni samstarfsvilja varðandi sérstakan byggðakvóta þannig að fyrirtækinu Valþjófi verði gert kleift að blómstra á Flateyri. Þetta eru heimamenn sem hafa sterkar rætur á Vestfjörðum og ætla sér að halda áfram að byggja upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×