Erlent

Segir lögin í Úganda mikil vonbrigði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Vísir/Kristinn
„Íslensk stjórnvöld styðja réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og það eru mér því mikil vonbrigði að þessi lög hafa nú tekið gildi,“ segir í tilkynningu frá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra.

Fyrr í dag undirritaði Yoveri Museveni, forseti Úganda, lög sem kveða á um lífstíðardóm fyrir samkynhneigð.

Í tilkynningunni segir jafnframt að ákvæði laganna brjóti gegn mannréttindum sem tryggð séu í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Afríku og í sáttmála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Úganda hefur fullgilt.

„Utanríkisráðherra ítrekar að það sé skylda stjórnvalda að standa vörð um mannréttindi allra þegna sinn, samkynhneigðra jafnt og annarra. Úganda er mikilvægt samstarfsríki Íslands og eitt af þeim fimm ríkjum sem lögð er áhersla á í þróunarsamvinnuáætlun. Þróunarsamvinna Íslands í Úganda er unnin í samstarfi við héraðsstjórnvöld auk þess sem verkefni á vegum frjálsra félagasamtaka eru studd,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.