Innlent

Hækkun gjalds í bílastæðahúsum á skjön við yfirlýsingar meirihluta borgarstjórnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík segir að sú ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að hækka gjaldskrár í bílastæðahúsum um allt að 200 prósent sé á skjön við yfirlýsingar meirihluta borgarstjórnar um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum á þessu ári.

Borgarráð ákvað í nóvembermánuði síðastliðnum að falla frá öllum gjaldskrárhækkunum sem áttu að taka gildi um áramótin. Borgin vildi með þessu taka „frumkvæði í því að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt í aðdraganda kjarasamninga“ eins kom fram í yfirlýsingu frá meirihluta borgarstjórnar.

„Við erum því tilbúin að draga þetta til baka til að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir víxlverkun þar sem enginn græðir og allir tapa,“ sagði Björn Blöndal aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra í samtali við Vísi þann 14. nóvember síðastliðinn.

Gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reyjavíkur í bílastæðahúsum hækkaði hins vegar um allt að 200 prósent um áramótin.

Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík segir að þetta komi á óvart og sé á skjön við yfirlýsingar meirihluta borgarstjórnar.

„Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég átti ekki von á þessu. Skýringin er að þetta hafi ekki hækkað í mörg ár en þetta er samt sem áður ekki í samræmi við yfirlýsingar meirihlutans um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum,“ segir Halldór.

Hann segir að þetta sendi neikvæð skilaboð út í samfélagið og ætlar að taka málið upp innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×