Innlent

Rukka stjórnmálaflokka um stefnu í innflytjendamálum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gerður Gestsdóttir situr í teymi um málefni innflytjenda og stendur fyrir málþingi um stefnu stjórnmálaflokka í þessum málaflokki.
Gerður Gestsdóttir situr í teymi um málefni innflytjenda og stendur fyrir málþingi um stefnu stjórnmálaflokka í þessum málaflokki.
Í Reykjavíkurborg voru ríflega tvö þúsund innflytjendur án ríkisborgararéttar á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010.

Mjög líklega hefur orðið fjölgun í þessum hópi á kjörskrá fyrir kosningar í vor þar sem fleiri hafa náð búsetuviðmiðinu og öðlast þar með kosningarétt.

Vegna þessa stækkandi hóps stendur teymi um málefni innflytjenda fyrir morgunverðarfundi í næstu viku með frambjóðendum til borgarstjórnar þar sem þeir verða spurðir hvað þeirra flokkur hyggst gera í málefnum innflytjenda.

„Við viljum ná málefnum innflytjenda á dagskrá í kosningunum. Það er ekki til neinn þrýstihópur innflytjenda en mörg gífurlega mikilvæg mál snerta þá sérstaklega, eins og atvinnumál og menntamál barna þeirra,“ segir Gerður Gestsdóttir, sem er ráðgjafi innflytjenda hjá Vinnumálastofnun.

„Ég hef aldrei séð kosningarloforð sem snúa beint að innflytjendum eða stjórnmálaflokka reyna að höfða til þeirra sem hóps og því köllum við eftir því á þessum fundi,“ segir hún.

Á fjölmenningarþingi borgarinnar árið 2012 kom fram að meirihluti þátttakenda á þinginu taldi sig ekki geta fylgst nægilega vel með stjórnmálum vegna takmarkaðs aðgangs að upplýsingum.

Bent var á að þýðingar á vefsíðum stjórnmálaflokka þyrftu að vera betri og endurspegla íslenska textann í stað úrdrátta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×