Innlent

Sterklega orðaður við fyrsta sætið

Elimar Hauksson skrifar
Birkir Jón er fæddur á Siglufirði og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í norðausturkjördæmi í tíu ár.
Birkir Jón er fæddur á Siglufirði og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í norðausturkjördæmi í tíu ár. Mynd/GVA
Fyrrum varaformaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, er sterklega orðaður við oddvitasæti framsóknarmanna í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor en raddir þess efnis verða sífellt háværari innan flokksins.

Birkir, sem nú er búsettur í Kópavogi, sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn frá árinu 2003 til 2013 en þar áður hafði hann átt sæti í bæjarstjórn Fjallabyggðar. Birkir vildi ekki staðfesta hvort að hann myndi sækjast eftir fyrsta sætinu en gaf þó til kynna að slíkt kæmi til greina.

„Ég er að hugleiða þessi mál og hef fengið hvatningu frá fólki í Kópavogi um að láta slag standa, enda er um að ræða mjög spennandi samfélag hér í Kópavogi," sagði Birkir í samtali við Vísi.

Uppstillinganefnd mun stilla um lista framsóknarmanna í Kópavogi en formaður nefndarinnar, Sigurjón Örn Thorsson, segir að fljótlega verði auglýst eftir framboðum á listann.

„Okkur hafa ekki borist neinar formlegar tilkynningar en það er verið að vinna í því að auglýsa eftir framboðum. Það er trúlegt að listinn muni liggja fyrir í lok þessa mánaðar," segir Sigurjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×