Erlent

Neyðarástand vegna mænusóttar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bólusetning er eina leiðin til að koma í veg fyrir smit.
Bólusetning er eina leiðin til að koma í veg fyrir smit.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO)  segir að neyðarástand sé yfirvofandi vegna aukinnar útbreiðslu mænusóttar. Stofnunin segir að verði ekki gripið til aðgerða, muni mistakast að útrýma einum skæðasta sjúkdómi heims.

Þetta er í annað sinn sem stofnunin lýsir yfir slíku neyðarástandi og var það síðast vegna svínaflensufaraldsins árið 2009. Í tilkynningu frá stofnuninni segir að hættan sé mest í Kamerún, Pakistan, Sýrlandi, Afganistan, Miðbaugs-Gíneu, Eþíópíu, Írak, Ísrael, Sómalíu og Nígeríu. Því er mælt með því að fólk sem ferðist til þessara landa láti bólusetja sig, en bólusetning er eina leiðin til að koma í veg fyrir smit.

Í nóvember á síðasta ári staðfesti WHO að tíu börn í Sýrlandi hefðu smitast af mænusótt, og var það í fyrsta sinn í fjórtán ár sem mænusótt varð vart í landinu og því töluvert bakslag fyrir baráttuna við að útrýma þessum skæða sjúkdómi sem varpar á sama tíma ljósi á mikilvægi bólusetninga.

Mænusótt, sem einnig nefnist mænuveiki eða lömunarveiki, er bráðsmitandi veirusjúkdómur sem ræðst á taugakerfi manna og getur valdið varanlegri lömun á skömmum tíma. Engin lækning er við sjúkdómnum sjálfum en hægt er að hefta útbreiðslu hans með bólusetningu. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.

Mænusótt var landlæg um öll Vesturlönd allt fram á miðja 20. öld þegar bóluefni komu fyrst fram á sjónarsviðið.Talið er að veiruafbrigðið sé upprunnið í Pakistan og hafi komið til Sýrlands með pakistönskum vígamönnum sem þá tóku þátt í borgarastyrjöldinni.

Baráttan gegn mænusótt á heimsvísu hefur gengið afar vel síðustu ár og er sjúkdómurinn nú aðeins landlægur í þremur löndum, Nígeríu, Pakistan og Afganistan, samanborið við 125 lönd fyrir aldarfjórðungi. Það er meðal annars að þakka átaki á vegum WHO og UNICEF með fulltingi Rótarýhreyfingarinnar og fleiri aðila.

Árið 2013 er vitað til þess að 417 manns hafi smitast af mænusótt á heimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×