Innlent

Stúdentar styðja kjarabaráttu kennara við HA

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
„Hagsmunir stúdenta eru að kennarar þeirra séu ánægðir í starfi og fái laun við hæfi. Við styðjum því okkar kennara og annað starfsfólk við Háskólann á Akureyri af heilum hug í kjarabaráttu þeirra.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi stúdenta við HA.

Tilefnið er að á mánudaginn samþykktu kennarar við HA að boða til verkfalls.

Í tilkynningunni segir að verði ekki samið og komi til verkfalls muni alvarlegt og erfitt ástand skapast sem mun bitna á stúdentum við HA og fjölskyldum þeirra auk kennara og annars starfsfólks við skólann.

Prófatími í háskólum sé mikill álagstími hjá mörgum stúdentum og verkfall muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

„Það mun ekki einungis valda óþarfa auknu stressi í prófatíðinni heldur seinka svo um munar útborgun námslána. Það kemur sér illa fyrir einstaklinga jafnt sem fjölskyldufólk sem stundar nám. Þetta mun hafa í för með sér að fjöldi námsmanna þarf þarf að reiða sig á velvild viðskiptabanka og fyrirframgreiðslu til að framfleyta sér og sínum.“

Þá muni lengri skólatími koma niður á sumarvinnu stúdenta með tilheyrandi tekjutapi. Margir treysti á góðar tekjur yfir sumartímann því námslán dugi skammt.

„Því er mikilvægt að samið verði áður en til verkfalls kemur. Af verkfalli má ekki verða þvi það mun setja líf og áform allt of margra úr skorðum. FSHA skorar á samningsaðila að ganga til samninga við fyrsta tækifæri og taka á vandanum í stað þess að slá honum á frest.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×