Innlent

Prinsipplaus umræða úti á túni

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherra segir formenn gömlu stjórnarflokkanna telja að upphæð veiðigjalda eigi að ráðast af þörf ríkissjóðs fyrir tekjur en ekki af stöðu útgerðarinnar. En ráðherrann var spurður út í það tekjutap sem nýtt frumvarp um veiðigjöld hefur á stöðu ríkissjóðs á Alþingi í dag.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sagði að frumvarp sjávarútvegsráðherra sem nýlega var dreift á Alþingi feldi í sér áframhaldandi lækkun á veiðigjöldum á útgerðina. Að hluta til megi rekja þetta til lægra afurðaverðs til einstakra greina sjávarútvegsins. En lækkun gjaldsins hefði áhrif á stöðu ríkissjóðs.

„Er ekki ráð í fyrsta lagi að leggja nú á gjald á nýjar tegundir, upphafsgjald í makríl, að leggja gjald á veiðar á tegundum sem ekki hafa áður verið hluti af hlutdeildarkerfinu en koma nú nýjar inn,“ spurði Árni Páll.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók undir með Árna Páli að nú hefðu stjórnvöld sökum reynslunnar betra tæki til að dreifa veiðigjaldinu í samræmi við afkomu útgerða í einstökum tegundum.

„Þá er að  koma betur og betur í ljós hversu mjög fyrrverandi ríkisstjórn var úti á túni í álagningu gjaldsins á síðasta kjörtímabili,“ sagði fjármálaráðherra.

Með áætlun um tekjur af veiðigjöldum upp á allt að 20 milljarða til ársins 2016, sem ekki gengi upp.

„Án þess að það myndi hafa verulega auknar byrðar á útgerðina í för með sér,“ sagði Bjarni en þá kallaði Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar framí fyrir honum: „Aumingja útgerðin“. Og Bjarni svaraði með nokkurri vanþóknun: „Aumingja útgerðin, heyrist hér kallað úr þingsal.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði fjármálaráðherra ekki hafa áhyggjur af tveggja milljarða tekjutapi ríkissjóðsen við afgreiðslu fjárlaga hefðu stjórnarflokkarnir haft áhyggjur af mun minni upphæðum t.d. varðandi námsmenn.

„Og ég held að þetta snúist ekki bara um afkomu útgerðarinnar. Ég held að þetta snúist um pólitík. Um það mynstur sem þessi ríkisstjórn setur fram um að lækka hér veiðigjöld, um að láta auðlegðarskattinn falla niður og auka á meðan álögur á námsmenn og sjúklinga. Það eru ekki lækkaðir hér skattar á tekjulægsta fólkið þeir eru lækkaðir á tekjuhæsta fólkið,“ sagði Katrín.

Fjármálaráðherra sagði þessa umræðu algerlega prinsipplausa af hálfu vinstriflokkanna.

„Umræða sem byrjaði á því að snúast um að menn ættu að greiða fyrir aðgang hóflegt, sanngjarnt gjald. Hún er farin að snúast um það, hvað þarf ríkissjóður. Hún snýst bara um það,“ sagði Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×