Innlent

Fjárlagaumræðan: Forsætisráðherra í útlöndum að halda upp á afmæli konunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð er væntanlegur til landsins á morgun.
Sigmundur Davíð er væntanlegur til landsins á morgun. Vísir/Valli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, er ekki viðstaddur 2. umræðu fjárlaga sem fram hefur farið á Alþingi í dag og í kvöld. Hann er þó ekki skráður á fjarvistarskrá þingsins en er staddur erlendis. Þar er hann að halda upp á afmæli eiginkonu sinnar.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, segir í samtali við Vísi að ferðin hafi verið löngu ákveðin.

„Það var í raun ekki hægt að breyta þessari ferð. Umræða um fjárlög hefur auðvitað dregist eins og gengur en hún var ekki á dagskrá dagsins í dag þegar ferðin var bókuð,“ segir Jóhannes.

Hann hefur ekki skýringar á því hvers vegna forsætisráðherra er ekki á fjarvistarskrá í dag. Jóhannes segist ekki hafa tilkynnt það sjálfur að Sigmundur væri erlendis en telur að einhver úr forsætiráðuneytinu hafi gert það. Að sögn Jóhannesar er ráðherrann væntanlegur til landsins á morgun.

Þegar Vísir hafði samband við skrifstofu Alþingis fengust þær skýringar að forsætisráðherra væri ekki á fjarvistarskrá þar sem láðst hefði að tilkynna um fjarveru hans fyrir þingfund. Ekki fengust þó upplýsingar um hvort tilkynnt hefði verið um fjarvist hans eftir að þingfundur hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×