Innlent

Vilja draga til baka hækkanir á greiðslum sjúklinga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tillögurnar voru kynntar í Alþingishúsinu í dag.
Tillögurnar voru kynntar í Alþingishúsinu í dag. vísir/jhh
Stjórnarandstöðuflokkar vilja að að hækkanir er tengjast greiðslum almennings fyrir heilbrigðisþjónustu verði dregnar til baka, en að óbreyttu mun stjórnarmeirihlutinn hækka greiðslur um 1.900 milljónir á ári. Þá vilja þeir aukin framlög til lífeyrisþega og sérstakt framlag til BUGL. Einnig vilja þeir að framhaldsskólar verði opnir öllum, ekki einungis fólki yngra en 25 ára.

Allir stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi kynntu á blaðamannafundi í dag breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu. Breytingartillögurnar eru í fimm liðum og snúa meðal annars að heilbrigðisþjónustu, mennta- og menningarmálum, atvinnumálum og fleiru. Önnur umræða fjárlaga hefst á Alþingi klukkan hálf fjögur í dag. 

Flokkarnir vilja halda útvarpsgjaldi Ríkisútvarpsins óbreyttu og að það renni óskert til útvarpsins. Hvað varðar íslenska menningu er lagt til að framlög í verkefnasjóði skapandi greina og bókasafnssjóði rithöfunda verði aukin. Þá vilja þeir að opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu og Listaháskólinn húsnæðisvarðar.

Í atvinnumálum og innviðum samfélagsins er lagt til að fallið verði frá styttingu bótatíma atvinnuleitenda úr þremur árum í tvö og hálft og að aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.

Stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum og í framkvæmdasjóð eru á meðal tillagna og að framlög verði veitt á ný í Græna hagkerfið.

Varðandi réttlætis- og mannréttindamál vilja flokkarnir að hætt verði við að fella niður framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Þá vilja þeir auka framlag til Útlendingastofnunar og framlag til þingsályktunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi (IMMI).

Hvað varðar fjármögnun tilagnanna segir: „Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkun veiðigjalda til samræmis við fyrri áform og efldra skattrannsókna, m.a. með tafarlausum kaupum á upplýsingum úr skattaskjólum og auknu framlagi til skattrannsóknarstjóra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×