Lífið

Aðför að sjálfsmynd þjóðar

Jakob Bjarnar skrifar
Þjóðarsálin er rasandi reið vegna frétta af þeim Beyoncé og Jay-Z.
Þjóðarsálin er rasandi reið vegna frétta af þeim Beyoncé og Jay-Z.
Íslenskir fjölmiðlar hafa eftir bestu getu greint frá því að stjörnurnar og hjónin Beyoncé og Jay-Z eru stödd hér á landi og fylgst með ferðum þeirra. Um er að ræða eitthvert frægasta fólk í heimi og því vandséð að óeðlilegt geti talist að um ferðir þeirra sé fjallað, hvar sem þau fara vekja þau athygli. Þó um sé að ræða tabloid-blaðamennsku að því leyti til að meiri áhersla er lögð á „hver“ í fréttaflutningunum, fremur en „hvað“, þá er almennt um eins sakleysislegar fréttir að ræða og hugsast getur. Og þær njóta mikillar athygli.

Okkur kemur þetta ekki við!!!

En, það breytir ekki því að neikvæð viðbrögð við fréttunum hafa verið mikil, og þau má finna á athugasemdum allra vefmiðla landsins. „Látið þau í friði!“ er þemað: „Hættið að fjalla um þetta!“ og „Þetta kemur okkur ekki við!“ eru mildasta útgáfurnar sem finna má, annars er mikill ofsi sem einkennir athugasemdirnar.

Engin leið er að fá þessi viðbrögð til að ganga upp röklega; þetta eru, eins og áður sagði, sárasaklausar fréttir og það er ekki eins og neinn sé neyddur til að til að lesa þær. Og er ýmsu í þessu sambandi ruglað saman, hvort heldur er raunveruleg ágengni fjölmiðlafólks og ljósmyndara og svo jafnvel fréttir af hugsanlegri ágengni. Fréttirnar allar þar sem þau eru nefnd á nafn flokkast meðal ýmissa sem áreiti í þeirra garð. Víðast hvar myndu viðbrögð sem þessi vekja furðu, í löndum sem blaðamennska sem þessi hefur tíðkast í ár og öld. Því er ekki óeðlilegt að ætla að þessi ofsafengnu viðbrögð séu reist á einhverju sem hugsanlega er djúpt í iðrum þjóðarsálarinnar sjálfrar?

Jón Gunnar segir reiði einkennandi viðbrögð þegar gengið er yfir menningarleg landamæri.
Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði og hann segist ekkert hafa skoðað þetta sérstaklega né rannsakað en telur í sjálfu sér ekki um flókið fyrirbæri að ræða. „Ef ég ætlaði mér að rannsaka þetta myndi ég líklega ræða við þetta fólk sem bregst svona illa við og spyrja það út í þeirra tilfinningar og hvaðan kemur þetta?“

Partur sjálfsmyndar þjóðar að abbast ekki uppá fræga

En, af því að ekki er gott að greina ástæður fyrir reiðinni í fljótu bragði, þá er sem þetta sé eitthvað félagssálarfræðilegt, eins og fólk líti á þetta sem einskonar aðför að sjálfsmynd þjóðarinnar?

„Við verðum alltaf reið þegar við teljum einhverja vera að brjóta normin. Það gerir okkur reið. Þó það komi okkur ekkert við. Af því að okkur finnst um normin. Við hlýðum þeim. Tengist því sem okkur finnst um rétt og rangt og þess vegna verður fólk reitt. Það gildir almennt séð um alla hegðun sem er á skjön, hegðun sem brýtur gegn siðaboðum. Þetta er tilfinningalegs eðlis.“

Og það myndi vera sammannlegt þó þetta tilfelli eigi sérstaklega við um Ísland?

„Já, einmitt. Ég myndi halda það. Talað er um menningarleg landamæri. Allir hópar, sérstaklega einsleitir hópar, hafa menningarleg landamæri. Við erum svona, ekki hinsegin. Og við erum ekki svona, eins og að vera að troðast uppá Beyoncé og Jay-Z. Við erum ekki þannig, þó þetta tíðkist um heim allan annars staðar. Og af því að fólk gerir svona verðum við reið, það er verið að ganga út yfir hin menningarlegu landamæri. Það er svo stór hluti sjálfsmyndar okkar. Að vera Íslendingur. Það er stoffið í sjálfsmyndinni. Þetta er nú bara svona almenn félagsfræði,“ segir Jón Gunnar.


Tengdar fréttir

Beyonce og Jay-Z í Bláa lóninu

Bandaríska ofurparið Beyoncé og Jay-Z eru eins og fram er komið á landinu. Ætla þau að halda upp á 45 ára afmæli rapparans sem hann fagnar þann 4. desember.

Beyoncé birtir fallega skýjamynd

Telja aðdáendur söngkonunnar víst að Beyoncé hafi tekið myndina til að heiðra minningu Doris Rowland, móður Kelly Rowland.

„Látið þau í friði!“

Fjöldi fólks biðlar til fjölmiðla og ljósmyndara að láta hjónin Beyoncé og Jay Z í friði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×