Innlent

Spyr um bann við pyndingum á Íslandi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Birgitta lagði fram fyrirspurnina í gær.
Birgitta lagði fram fyrirspurnina í gær. Vísir / Stefán
Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, vill vita hvort brugðist hafi verið við tilmælum Sameinuðu þjóðanna um að lagfæra þurfi skilgreiningu pyndingarhugtaksins í almennum hegningarlögum. Tilmælin komu frá nefnd gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og snéru meðal annars að því að pyndingar verði gerð refsiverð á Íslandi.

Hún hefur lagt fram fyrirspurn þess efnis á Alþingi.

Það kemur í hlut Ólafar Nordal að svara fyrirspurninni.Vísir / GVA
Tilefni fyrirspurnarinnar er að Ísland hefur fullgilt samning sem felur í sér bann við pyndingum en ekki sett lögin sem til þarf að banna beitingu pyndinga.

Birgitta furðar sig á því í samtali við Vísi hvað Íslendingar séu lengi að fullgilda slíka samninga. „Það er alveg furðulegt hvað við erum lengi að fullgilda marga góða samninga sem við þó teljum okkur eiga aðild að. Við erum ekki aðilar að þeim nema við séum búin að fullgilda þá,“ segir hún.

Birgitta vill einnig svör frá nýskipuðum innanríkisráðherra um hve margar kærur bárust ríkissaksóknara á árunum 2011–2013 þar sem kært var fyrir brot sem fellur undir atferlislýsingu samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og hver urðu afdrif málanna í réttarkerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×