Innlent

Fækkun í Þjóðkirkjunni: „Þetta á að vera drullu beisik“

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hjalti Jón er verkefnastjóri æskulýðsstarfs Laugarneskirkju.
Hjalti Jón er verkefnastjóri æskulýðsstarfs Laugarneskirkju. Mynd/Guðmundur Einar
„Mér finnst þetta almennt áhugaverð og spennandi þróun, fólk er að taka afstöðu, út frá sjálfu sér. Mér sýnist almennur upptaktur í því að fólk sé að kanna, máta sig og taka ábyrgð í andlegum efnum og það er alltaf fagnaðarefni,“ segir HjaltiJónSverrison, verkefnastjóri æskulýðsstarfs Laugarneskirkju, um tölur Þjóðskrár sem sýna að fyrir hvern þann Íslending sem fæðst hefur inn í Þjóðkirkjuna síðastliðin fjögur ár hefur rúmlega einn sagt sig úr henni. Þá gengu 636 manns úr kirkjunni á tímabilinu 1. júlí til 30. september í ár en aðeins 94 nýir meðlimir voru skráðir.

„Þessi þróun ætti raunar að vera fagnaðarefni eins fyrir þjóðkirkjuna, það er enn frekar verið að kalla eftir því að hún segi hver hún sé og fyrir hvað hún standi, það flókna er að hún er og á og má auðvitað vera svo fáranlega margt - á meðan hún man að hún stendur fyrir eitt fyrst og síðast. Samfélagið skorar alltaf á kirkjuna og oft kemur þannig krafan um siðbót utan frá en ekki innan. Allt í allt þá finnst mér þetta mjög spennandi tímar og frábært að flóran víkki, vaxi og breytist,“ heldur Hjalti Jón áfram.

Aðspurður um hvort réttlætanlegt sé að eitt trúfélag fái svo há fjárframlög umfram önnur segir Hjalti samband ríkis og þjóðkirkju flókið.

„Sambandið er fáránlega flókið. Ég er ekki fær um að svara því með beinum hætti. Aftur á móti er svo að Þjóðkirkjan hefur menningarlega sérstöðu hér í landi og ég held, þó ég skilji að margir séu ósammála, að þrátt fyrir það að viðhalda þeirri sérstöðu, og því má ekki gleyma að Þjóðkirkjan er afskaplega miðlæg í margri þjónustu hér á landi, sé hægt að tryggja að lífsskoðanafélög hér á landi standi jöfnum fótum á grundvallarsviðum.

Fjárhagslega hliðin má finna sér bara gott jafnvægi eftir hlutföllum.“

En fyrir hvern er Þjóðkirkjan þá?

„Þjóðkirkjan er og verður að vera fyrst samfélag, stofnun svo. Fólkið skapar kirkjuna og flóran er litrík - það sést vel í allri umræðu í dag. Fólk er ólíkt innan þjóðkirkjunnar ekki síður en gagnvart þeim sem utan stendur. Það sem sameinar skiptir mestu og það er alltaf fagnaðarerindið: elskaðu náungann, leyfðu þér að vera elskaður og meðtekinn. Lifum þessu lífi saman.

Þetta á að vera nefnilega drullu beisik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×