Lífið

Joan Rivers látin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Grínistinn Joan Rivers lést í kvöld, 81 árs að aldri. Hún hætti að anda í miðri hálsskurðaðgerð í síðustu viku og hafði legið þungt haldin á Mt. Sinai spítalanum í New York.

Rivers undirgekkst skurðaðgerð þar sem hún átti erfitt með tal vegna vandræða með raddbönd sín. Henni var haldið sofandi í öndunarvél. 

Andlát hennar bar að klukkan 1:17 að staðartíma og að sögn dóttur hennar var hún í hópi vina og vandamanna þegar hún féll frá. Í tilkynningu frá fjölskyldunni þakkar dóttir Rivers starfsfólki sjúkrahússins fyrir vel unnin störf og að þau séu þakklát fyrir allan þann hlýhug sem þeim var sýndur meðan Joan dvaldist á spítalanum.

„Helsta gleði móður minnar var að fá fólk til að hlæja. Þrátt fyrir að okkur sé ekki hlátur í hug á þessari stundu hefði hún óskað þess að við myndum hlæja brátt á ný,“ segir í tilkynningunni sem sjá má hér að neðan.

Joan Rivers skaust fyrst fram á sjónarsviðið sem gestur í þætti Johnny Carsons, The Tonight Show árið 1965. Hún varð reglulegur gestur í þættinum og samspil hennar og Carsons var slíkt að henni var boðið árið 1983 að vera meðstjórnandi þáttarins.

Hún fékk svo sinn eigin sjónvarpsþátt árið 1986 sem olli mikilli úlfúð milli hennar og Carsons en þáttur hennar er talinn marka vatnaskil. Ekki einungis í þáttagerð heldur einnig fyrir konur í skemmtanaiðnaðinum, en grín hafði lengið verið einokað af karlmönnum.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×