Lífið

Ólafur Darri í nornarlíki

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ólafur Darri mun eflaust láta Vin Diesel hafa fyrir hlutunum í myndinni.
Ólafur Darri mun eflaust láta Vin Diesel hafa fyrir hlutunum í myndinni. Vísir/GVA
„Ég hef nú aldrei hitt hann en hann er flottur. Ég hef séð myndirnar hans og hann var flottur í Pitch Black og The Fast and the Furious-myndunum,“ segir leikarinn Ólafur Darri Ólafsson.  Hann leikur á móti stórleikaranum Vin Diesel í nýrri kvikmynd sem ber nafnið The Last Witch Hunter.

Ólafur Darri mun þar leika stórt hlutverk sem norn sem Diesel þarf að berjast við en hann leikur nornaveiðarann. „Við munum hittast í myndinni, það verður skemmtilegt,“ bætir Ólafur Darri við. Hann segist hafa fengið að vita að hann hafi fengið hlutverkið í síðustu viku en hann fór í prufur fyrir myndina í maí.

Í myndinni leika fleiri kanónur á borð við Michael Caine og Elijah Wood. „Mig hefur alltaf langað til að hitta Michael Caine, ég veit að hann er góður vinur Dorritar þannig að ég ætla að skila kveðju frá Dorrit,“ segir Ólafur Darri og hlær. Myndin fer í tökur í byrjun september og fara þær fram í Pittsburgh í Pennsylvaníu og hlakkar Ólafur Darri mikið til. „Það er alltaf gaman þegar maður fær vinnu og ég er mjög þakklátur.“

Leikstjóri myndarinnar er Breck Eisner. „Ég hef bara séð myndina The Crazies, sem er endurgerð af gamalli hryllingsmynd, og var mjög hrifinn og hlakka til að vinna með honum,“ segir Ólafur Darri.

Þá er hann einnig að fara til Los Angeles að leika í prufuþætti fyrir AMC-sjónvarpsstöðina sem framleiddi meðal annars Breaking Bad-þættina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.